Hallsteinsgarður Skúlptúrar Hallsteins Sigurðssonar sóma sér vel á Gufuneshæð í Grafarvogi.
Hallsteinsgarður Skúlptúrar Hallsteins Sigurðssonar sóma sér vel á Gufuneshæð í Grafarvogi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Hallsteins nafni: Vísir að yfirliti á (6-7 áratuga) ferli listamannsins. ★★★★· Sýning á verkum Hallsteins Sigurðssonar í Café Pysju í Hverafold 1-3. Lýkur 4. des.

Myndlist

Karina Hanney Marrero

Í ljósaskiptunum ók ég frá yfirlitssýningu Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara Í Hallsteins nafni: Vísir að yfirliti á (6-7 áratuga) ferli listamannsins í Café Pysju, að Hallsteinsgarði á Gufuneshæð í Grafarvogi. Höggmyndir Hallsteins hafa sett mark sitt á þennan sjóndeildarhring svo lengi sem ég man eftir. Þær voru ásamt áburðarverksmiðjunni þar skammt frá merki um að við krakkarnir værum komin langt út fyrir hverfismörkin sem voru enn í vaxandi mótun á sínum tíma.

Hallsteinn Sigurðsson er iðinn við sína listsköpun, sem hann skilgreinir sjálfur sem rýmisrannsóknir eða hreinlega ævintýramennsku. Hann var einn af stofnendum Myndhöggvarafélagsins, er bróðursonur Ásmundar Sveinssonar myndlistarmanns og nam bæði í Bretlandi og á Ítalíu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Verk hans, sem eru módernísk og óhlutbundin og hafa þótt vera undir áhrifum skúlptúristans Anthonys Caros, prýða borgarlandslagið á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Það kannast líklega margir við höggmyndir Hallsteins þó svo að fæstir geti nefnt listamanninn á nafn. Það var því vel við hæfi að sýningarskráin beri titilinn Í Hallsteins nafni enda yfirlitssýning kjörið tilefni til að tengja listamanninn við eigin smíð. Í skránni má finna fræðitexta, eldri sýningarrýni og ljósmyndir af höggmyndum Hallsteins í Gufunesi. Hún tengist verkum sýningarinnar ekki með beinum hætti nema auðvitað að hún hverfist um verk og uppvöxt Hallsteins sem myndhöggvara. Sýningunni er stýrt af Brynjari Helgasyni og hún unnin í nánu samstarfi við Hallstein sjálfan en Café Pysja, ásamt meðlimum Myndhöggvarafélagsins, hefur lyft grettistaki þegar kemur að því að varpa ljósi á þennan kunnuglega en þó lítt þekkta myndhöggvara. Til stendur að opna vinnustofu Hallsteins öðrum listamönnum sem þar vilja vinna og hvet ég alla þá til að fylgja Myndhöggvarafélaginu á samfélagsmiðlum til að fá frekari fregnir af því ágæta verkefni.

Vilji í verki

Á yfirlitssýningunni gefur að líta eitt valið verk frá hverjum áratug; svifverk hangir í loftinu og steypt höggmynd stendur á gólfinu, ásamt fleiri frístandandi og upphengdum járnsmiðsverkum. „Vísir að yfirliti á (6-7 áratuga) ferli listamannsins“ er einmitt aðeins það, vísir. Sýningunni er ekki ætlað að gefa ævistarfi Hallsteins tæmandi skil, þó að hún marki mikilvægan upphafspunkt í því samhengi, heldur vekja máls á ævistarfi þessa afkastamikla en yfirséða listamanns. Að þessu leyti er sýningin óhefðbundin, en á yfirlitssýningum má gjarnan finna yfirlitsrit eða katalóg af verkum listamannsins ásamt nýjum fræðilegum nálgunum og tengingum. En það er einmitt kjarni málsins í tilfelli Hallsteins og hans verka; þau hafa fallið á milli þilja listfræðilegrar söguskoðunar. Á meðal undanfara Hallsteins í skúlptúrgerð eða myndmótun eins það var kallað voru Einar Jónsson, Ásmundur Sveinsson, Sigurjón Ólafsson, Jón Gunnar Árnason og Gerður Helgadóttir, en Hallsteinn átti síðar eftir að starfa samhliða nokkrum þeirra, meðal annars innan Myndhöggvarafélagsins. Félagsskapinn vantaði því ekki. Ein tilgáta sýningarstjóra um af hverju mörgum sást yfir Hallstein er vegna þess að hann tók ekki upp konseptið í verkum sínum heldur hélt sig við áhrif frá bókmenntum. Eins ýjar myndlistargagnrýnandi Dagblaðsins á 9. áratugnum að því að hann hafi hreinlega skort „staðfestu“. Þessu er ég ekki sammála enda sýnir æviverk Hallsteins þá einna helst að hann hafi einmitt búið yfir staðfestu og verið sannur eigin sýn í leik og starfi.

Áhugavert er að skoða verk Hallsteins út frá þeim umbreytingatímum sem gátu af sér stofnun Myndhöggvarafélagsins árið 1972 eða sama ár og hann kláraði nám við Central Saint Martins-skólann í norðurhluta London. En miðillinn hafði fest sig hægt og bítandi í sessi hér á landi eftir að myndmótunardeild innan Myndlista- og handíðaskóla Íslands var sett á stofn árið 1966 undir handleiðslu Jóhanns Eyfells.

Opinber list

Höggmyndir standa gjarnan á opinberum stöðum og hafa borið viðurnefnið opinber list eða, í nútímasamhengi, list í almannarými. Verk í almannarými falla gjarnan inn í borgarlandslagið og mörgum þykir það einmitt vera tilgangur þeirra. Þeim er valinn staður þar sem verkið og staðsetningin eiga gjarnan í sjónrænu og jafnvel sögulegu samtali við umhverfið. Verk sem þessi eru afhjúpuð eða opinberuð við hátíðlegar athafnir, svo eftir því er tekið á meðal fræðimanna og samfélags. Svo dofnar yfir hátíðarbjarmanum og hversdagsleikinn tekur við; verkin veðrast og verða hluti af hversdagslegu samhengi. Eða þar til það stendur til að færa þau úr stað eða þau eru enduruppgötvuð eins og í tilfelli Hallsteins. Slík enduruppgötvun gefur ástæðu og tækifæri til endurskoðunar á hinni almennu söguskoðun. En þar liggur einmitt galdurinn, söguna má alltaf skoða aftur og eru slík uppbrot fagnaðarefni.

Vísi að yfirlitssýningu Hallsteins Sigurðssonar á Café Pysju lýkur með „finnesage“ hinn 4. desember næstkomandi og hvet ég alla til að gera sér ferð í sýnimgarsalinn í Hverafold og upp að skúlptúrgarðinum með verkum listamannsins á Gufuneshæð.

Höfundur er listfræðingur.