Píanóleikarinn „Það er eitthvað inni í mér, eftir alla þessa klassísku þjálfun, að ég spyr mig hvort ég megi gera eitthvað svona,“ segir Víkingur Heiðar um nálgun sína á nýju plötunni, From Afar. Hann er hér í New York.
Píanóleikarinn „Það er eitthvað inni í mér, eftir alla þessa klassísku þjálfun, að ég spyr mig hvort ég megi gera eitthvað svona,“ segir Víkingur Heiðar um nálgun sína á nýju plötunni, From Afar. Hann er hér í New York. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Viðtal

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Ég hef látið mig dreyma um að spila með þessari hljómsveit síðan ég var nemandi í Juilliard-skólanum hinum megin við götuna – þessir tónleikar skiptu því miklu máli fyrir mig persónulega,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari þar sem við sitjum yfir hefðbundinni kalkúnamáltíð á þakkargjörðardeginum í New York. Hann er að tala um framúrskarandi frumraun sína með Fílharmóníuhljómsveitinni í New York kvöldið áður; þar lék Víkingur píanókonsert Ravels í G-dúr fyrir fullu húsi í hinum nýuppgerða tónleikasal hljómsveitarinnar í Lincoln Center og vægast sagt við frábærar viðtökur. Í afar lofsamlegri gagnrýni í The New York Times sagði rýnir að þakkargjörðarhátíðin hefði hafist snemma í ár, með frábærum leik Víkings og hljómsveitarinnar. Og hann átti eftir að endurtaka leikinn tvö kvöld til um liðna helgi með sveitinni og líflegum og sannfærandi stjórnandanum, Stéphane Denéve, á tónleikaferð sinni um fimm bandarískar borgir.

„Maður á nokkur svona kvöld á þessari vegferð og þau búa með manni, kannski vegna þess að aðdragandinn er óvenjulega spennandi og maður er búinn að hugsa um þessa tónleika í mörg ár,“ segir Víkingur. „Þegar ég var hér í námi fór ég vikulega á tónleika í þessu húsi, að hlusta á þessa hljómsveit, og lét mig dreyma. Nú þegar það loksins gerðist að ég léki með henni þá var það svipað og þegar ég spilaði í fyrsta sinn í Fílharmóníunni í Berlín eða á opnunartónleikunum í Hörpu. Þetta voru draumar unglingsins að rætast.

Svo hafði tónleikunum líka verið frestað í tvö ár. Þá átti ég að spila annað verk en ég er alveg ótrúlega glaður yfir því að hafa átt þetta debút einmitt núna og með píanókonsert Ravels í G-dúr.“ Þá finnst honum ánægjulegt að fá að spila í þessum glæsilega endurgerða sal, sem var tekinn í notkun fyrir nokkrum vikum. „Þetta er orðinn einn besti salur í heimi!“

-- Ertu búinn að vera lengi með konsert Ravels á efnisskránni og spila hann víða?

„Ég var að ljúka tónleikaferð með Sinfóníuhljómsveit Montreal um Evrópu, við fluttum hann í London, Búdapest, Zagreb og líka í Montreal. Ég spilaði hann fyrst opinberlega með Sinfóníunni heima árið 2005,“ segir hann.

„Nú 17 árum síðar kom ég aftur að honum og sé verkið með allt öðrum augum. Mér finnst þetta einn allra flottasti konsert allra tíma, hreint ótrúlegt verk. Þetta var síðasta stóra tónverkið sem Ravel samdi. Hann var brilljant, með fallegustu hugmyndirnar í mögnuðustu litbrigðunum. Og að mínu viti hefur enginn náð viðlíka hæðum í að skrifa fyrir og útsetja fyrir hljómsveit. Þetta er mikill píanókosert og glæsilegur. Þetta verk er, held ég, eins og Mozart hefði samið hefði hann verið lifandi árið 1931.

Allt í því talar til mín. Hver einasti taktur. Þegar ég spila Ravel líður mér eins og þegar ég spila Mozart. Ég elska það, og það hlýtur að skila sér á einhvern hátt í flutningnum.“

Persónulegasta platan

Víkingur Heiðar hefur verið önnum kafinn við tónleikahald út um löndin síðustu mánuði en í haust kom líka út fimmta plata hans hjá Deutsche Grammophon-útgáfunni, From Afar. Þessa afar persónulegu plötu, sem er ólík hinum fyrri þar sem áherslan var á eitt eða tvö tónskáld, hefur Víkingur tileinkað hinu aldna ungverska tónskáldi og píanóleikara György Kurtág. Á henni flytur hann verk eftir Kurtág en líka eftir Bach, Mozart, Schumann, Brahms og Bartók, þar á meðal eigin umritanir, og líka umritun sína á Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns og aðra eftir Snorra Sigfús Birgisson á íslensku þjóðlagi. Á plötunni má heyra Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, eiginkonu Víkings, leika með honum þrí- og fjórhent, og svo hefur vakið mikla athygli að öll verkin eru flutt bæði á píanó og flygil.

Þegar Víkingur er spurður hvort hann muni fylgja From Afar eftir með einhverjum hætti neitar hann því.

„Þetta er stúdíóplata og ég ætlaði mér aldrei að fylgja henni eftir á neinn sérstakan hátt. Reyndar var flutningur á verkunum kvikmyndaður sérstaklega í Hörpu um daginn, með mjög fínum hætti, fyrir Deutsche Grammophon en það var fyrsta útsending á nýrri streymisveitu útgáfunnar, Stage Plus. Það er eiginlega það eina sem ég ætla að gera beint með plötuna.

Mér finnst það mikilvægur hluti af útgáfu að í henni sé eitthvað óvænt. Þessi plata er í raun ljóðabréf sem ég skrifa í plötuformi til Györgys Kurtágs, sem er eiginlega minn uppáhalds núlifandi tónlistarmaður, sem er orðinn 96 ára og ég hef verið svo heppinn að fá að kynnast persónulega í Búdapest á síðastliðnu einu og hálfu ári.

Ég hugsaði þetta upphaflega sem eins konar milliplötu; þetta er ekki íkonísk plata, eins og þær með Bach eða Mozart, hún er öðruvísi. Og mig langaði að finna leið til að koma frá mér efni sem ég hef ekki getað komið frá mér, eins og nýjum sem eldri umritunum, og stökum verkum eftir Bartók, Brahms og Schumann; tónlist sem ég hef ekki fundið stað á öðrum plötum en hefur virkilega langað til að gefa út. Öll þessi músík er auðvitað mjög tengd mér og því hvernig ég sé sjálfan mig þegar ég horfi í tónlistarspegil. Og á tónskáld sem hafa haft mikil áhrif á það hvernig ég hef mótast sem tónlistarmaður. Ave Maria er til dæmis fyrsta umritun sem ég gerði. Verkin eftir Kurtág standa mér líka nærri og eru á plötunni sett í samhengi við aðra tónlist sem stendur okkur báðum nærri, sem er leið til að tengja okkar sameiginlegu mengi. Svo eru þarna nýjar umritanir, á Bach og Mozart, og það er ákveðið áframhald á hugsuninni á eldri plötunum. Þá tók ég upp Intermezzo eftir Brahms sem var á fyrstu plötunni minni, Debut, sem kom út 2009 en ég er búinn að endurhugsa svo að það getur enginn haldið að sami píanistinn leiki á báðum þessum upptökum. Já, ég get líklega kallað þetta persónulegustu plötuna mina.“

Ekkert eftir nema kjarninn

– Hvað er það við tónlist Kurtágs sem þú tengir svona sterkt við?

„Ég elska listaverk sem eru illskilgreinanleg í sínum miðli. Ég elska þannig séð eins konar flekamót í listum, eins og til að mynda verk Ragnars Kjartanssonar sem eru ekki endilega beint myndlist en eru samt rosaleg myndlist; eru ekki tónlist en samt rosaleg tónlist; þau eru eitthvað þarna á milli sem er erfitt að útskýra og mér finnst Kurtág vera þannig. Hann er alltaf á milli og á mörkum ljóðrænna afmarkaðra hugmynda, sem eru jafnvel bundnar í orð og svo tóna. Mér finnst hann oft vera að tjá eitthvað sem eigi eiginlega ekki að vera hægt að tjá og hann gerir það á mjög eimaðan hátt, svo það er ekkert eftir nema algjör kjarni. Það er nokkuð sem mig dreymir um að nálgast meira í mínu starfi.“

Brosandi segir Víkingur að sér hafi þótt það súrrealískt að komast að því að Kurtág hafi verið að hlusta á upptökur sínar og fylgjast með sér. „Við hittumst fyrst í Búdapest á fundi sem átti að vera tíu mínútur en stóð í á þriðja tíma. Og um daginn þegar ég spilaði Ravel-konsertinn í Búdapest þá fór ég heim til hans og hann gaf mér ungverskar smákökur. Ég var svo frakkur að ég spilaði ekkert af þessu fyrir hann áður en ég tók verkin upp, ég vildi koma með mína sýn að þeim og koma honum á óvart. En hann var mjög ánægður með útkomuna og ég var feginn að finna það.“ Og hann dáist að því hvernig Kurtág hafi haldið lifandi forvitni fyrir listinni og túlkun.

„Nú erum við hér að spjalla á þakkargjörðardeginum og í rauninni er þessi plata þakkargjörð, til Kurtágs en ekki síður til foreldra minna fyrir að hafa sett píanó inn í svefnherbergið mitt þegar ég var lítill, því flygillinn í stofunni var alltaf upptekinn þegar mamma var að kenna á hann eða pabbi að semja.

Já, þetta er mjög persónulegt verk – þessi plata er þakkargjörð!“

Eins og hægar armbeygjur

– Þú ferð þá afar óvenjulegu leið að hljóðrita öll verkin á From Afar á bæði hefðbundið píanó og flygil, og leyfir okkur að heyra báðar útgáfur. Hvers vegna?

„Því það er svo fallegt! Ég geri það sem mér sýnist ef mér finnst það fallegt. En um leið óttast ég alltaf viðbrögðin. Það er eitthvað inni í mér, eftir alla þessa klassísku þjálfun, að ég spyr mig hvort ég megi gera eitthvað svona … Maður er alltaf að vinna með hefð en reynir á sama tíma að brjótast út úr henni. Og vera í samtali við fortíð sem er rosalega ríkuleg og mögnuð. Það er hlutskipti allra listamanna, í hvaða miðli sem er, en í klassíkinni fer svo mikið af kennslunni fram gegnum boð og bönn og ekki er alltaf mikil áhersla lögð á að nemendur vaxi upp í að verða eigin kennarar smátt og smátt. Það er vegna þess að kennarar jafnvel í bestu skólum – mínir kennarar voru sem betur fer undantekning þar á – hafa ekki hagsmuni af því að gera sig óþarfa; kennari á að vinna að því að nemandinn verði smám saman að eigin kennara og maður á að láta nemandann taka sem flestar ákvarðanir, og láta hann taka líka rangar ákvarðanir og átta sig á því, í staðinn fyrir að taka ákvarðanir fyrir nemendann.

Á sama tíma þoli ég ekkert minna en fólk sem talar það niður að mennta sig í tónlist. Það er óþolandi fáviska og heimóttarskapur. Ég heyri þetta oft á Íslandi, það glittir í að maður eigi ekki að þurfa að mennta sig í list, sem er algjör vitleysa. Ef listkennsla fer fram á réttum forsendum þá verður oft eitthvað risastórt til úr því.“

Í þessu samhengi ræðum við listræna þróun Víkings sjálfs og hann segir að það hafi tekið sig þó nokkuð mörg ár að finna sinn tón eftir námið.

„Ég held ég hafi í raun fyrst nálgast hann, eins og hann er í dag, sem og ákveðna afstöðu, með Bach-plötunni. Þar var ég kominn með sjálfstæði sem ég hafði leitað eftir. Ég var samt alltaf að gera hlutina eins og mér sýndist og hef haldið því áfram.“

– En aftur að því að hljóðrita bæði á flygil og píanó. Það var óvænt.

„Hættan er sú að fólk fari að hugsa allt of mikið um hvað þetta sé og missi ljóðræna þráðinn. Og reyni að velja hvort sé betra, píanó eða stór Steinway-flygill. En á endanum er þetta viss heimspekileg afstaða, þetta er eins og Homeblest-kex, það er gott báðum megin!“ Hann brosir.

Ein skýringin sem Víkingur gefur á þessum leik við endurtekna nálgunina er að með þessu megi „á vissan hátt koma endanleikanum fyrir kattarnef“.

Víkingur bætir við að þessi nýja plata sín sé lágstemmd. „Þetta er næturplata. Sú dýnamík sem heillar mig mest í upptökum og í raun almennt í píanóleik er þegar beitt er ólíkum tegundum af pianissimo; innan slíkrar lágstemmdari dýnamíkur er mesta fjölbreytnin. Þeim mun sterkar sem þú leikur á píanó, þeim mun meira forte sem þú spilar, þeim mun minni fjölbreytni. Innan veikrar dýnamíkur má á miklu fjölbreyttari hátt byggja upp tilfinningu fyrir rými í hljómi. Það getur verið gaman á tónleikum að gefa í en á upptöku verður það hvimleitt. Á þessari plötu tek ég lengra ást mína á þessum litbrigðum, sem er langerfiðast að ná fram. Það krefst mestrar nákvæmni. Það er sú tækni sem ég er að reyna að vinna með núna og hef verið að gera síðan á Bach-plötunni.

Þversögnin í þessu, píanótæknilega séð, er að til að spila sem veikast þá þarf maður að hafa sterkustu fingurna. Þetta er eins og að gera armbeygjur rosalega hægt! Þá er erfiðast að stjórna sér á leiðinni niður; að stjórna þessum millimetrum inni í nótunni. Það er raunverulegur styrkur.“