Barátta Einar Þór Jónsson er landskunnur fyrir baráttu sína fyrir HIV-smitaða síðustu áratugi.
Barátta Einar Þór Jónsson er landskunnur fyrir baráttu sína fyrir HIV-smitaða síðustu áratugi. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „HIV-faraldrinum er því miður ekki lokið í heiminum og sjúkdóminum fylgja enn fordómar,“ segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna á Íslandi.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„HIV-faraldrinum er því miður ekki lokið í heiminum og sjúkdóminum fylgja enn fordómar,“ segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna á Íslandi.

Alþjóðlegi alnæmisdagurinn er í dag, 1. desember, og slagorð dagsins í ár er „jafnræði“. Fólk er hvatt til raunhæfra aðgerða sem þarf til að taka á ójöfnuði og að leggja sitt af mörkum til að binda enda á alnæmi. Einar segir að meðal þess sem þurfi að gera sé að auka framboð og gæði þjónustu við HIV-meðferð, prófanir og forvarnir.

Sjúkdómurinn mjög hamlandi

„Það eru 38 milljónir í heiminum með HIV og það er ekki búið að finna lækningu. Aðgengi fólks að þjónustu og meðferð er mjög mismunandi eftir svæðum í heiminum. Við hér á Íslandi getum auðvitað hrósað happi yfir nútímalegri og góðri þjónustu en það á ekki við um alla. Allir eiga þó sameiginlegt að það að búa við sjúkdóminn er mjög hamlandi í félagslegu tilliti. Hjá mörgum er sjúkdómurinn enn mikið leyndarmál og margir eiga erfitt með að tengjast fólki, eignast fjölskyldu og einfaldlega að vegna vel í tilverunni,“ segir Einar og minnir á að þó allir geti smitast af HIV tilheyri flestir jaðarsettum hópum, eins og samkynhneigðir karlar, innflytjendur og fólk sem sprautar sig í æð með eiturlyfjum. Fólk sem smitast af HIV fái stimpil.

„Það hvernig samfélagið stokkar upp og raðar skapar sjálfshatur hjá mörgum sem erfitt er að eiga við. Fordómar hafa mikil áhrif á líf hins smitaða.“

34 ný HIV-smit í ár

Á næsta ári verða 40 ár liðin frá því fyrsti einstaklingurinn var greindur með alnæmi á Íslandi en hann lést árið 1985. Lyf komu á markað fyrir aldarfjórðungi sem björguðu lífi HIV-jákvæðra. Einar segir aðspurður að nú séu um 350 karlar skráðir í PrEP-lyfjameðferð á Íslandi.

Um miðjan nóvember höfðu 34 einstaklingar komið nýir inn í þjónustu með HIV á göngudeild smitsjúkdóma og segir Einar að búast megi við því að sú tala verði komin nálægt 40 fyrir árslok. Þetta eru tölur í hærri kantinum að hans sögn en þær eru ekki til komnar af því að HIV sé að breiðast hraðar út en áður. „Það skýrist að hluta af stríðsástandi í Evrópu og auknum fjölda fólks sem kemur til landsins í leit að alþjóðlegri vernd.“

Fjármagn og samstaða þegin

Einar segir að forvitnilegt sé að bera saman viðbrögð samfélagsins við Covid og við HIV. „Allur heimurinn lagðist á eina ár við að vinna gegn Covid og fólk fórnaði miklu. Það væri óskandi að þetta hefði verið gert með fjármagni og samstöðu gegn HIV í gegnum tíðina. Það var til dæmis mikið talað um smitskömm í tengslum við Covid og að sá sjúkdómur hefði haft gríðarleg áhrif á geðheilbrigði. Ég geri ekki lítið úr því en ég hugsaði samt að þetta fólk vissi ekki um hvað það væri að tala í samanburði við það sem HIV-sjúklingar hafa þurft að ganga í gegnum.“

Rauði borðinn

Starfið er afar viðkvæmt

Í pistli frá formanni félagsins, Svavari G. Jónssyni, í blaðinu Rauða borðanum er rakið að starf samtakanna sé sérstakt, viðkvæmt og frábrugðið öðrum félögum að því leyti að stór hópur félagsmanna fari leynt með sjúkdóm sinn. „Félagið er að sjálfsögðu opið öllum, óháð því hvort viðkomandi er HIV- jákvæður eða ekki, enda margir aðstandendur og vinir verið félagsmenn í gegnum tíðina. Námsmenn og ungt fólk leitar til samtakanna eftir ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og upplýsingum. Ávallt er gætt fyllsta trúnaðar í samskiptum við einstaklinga,“ segir í pistlinum.