Stjarna Gunnar Felixson með æðstu viðurkenningu KR.
Stjarna Gunnar Felixson með æðstu viðurkenningu KR. — Ljósmynd/Erling Aðalsteinsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Gunnar Felixson var sæmdur stjörnu KR, helstu viðurkenningu Knattspyrnufélags Reykjavíkur, í hófi sem haldið var honum til heiðurs í KR-heimilinu um liðna helgi. „Gunnar er einn af glæsilegustu fulltrúum KR og sannarlega verður þess að bera stjörnu KR,“ sagði Lúðvík S. Georgsson, formaður félagsins, við það tækifæri. „Þetta er mikill heiður,“ svaraði Gunnar.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Gunnar Felixson var sæmdur stjörnu KR, helstu viðurkenningu Knattspyrnufélags Reykjavíkur, í hófi sem haldið var honum til heiðurs í KR-heimilinu um liðna helgi. „Gunnar er einn af glæsilegustu fulltrúum KR og sannarlega verður þess að bera stjörnu KR,“ sagði Lúðvík S. Georgsson, formaður félagsins, við það tækifæri. „Þetta er mikill heiður,“ svaraði Gunnar.

Eftir að hafa leikið með öllum yngri flokkum KR í fótbolta var Gunnar lykilmaður í gullaldarliði KR frá 1959, lék tæplega 200 leiki með liðinu, skoraði yfir 90 mörk og var meðal annars fjórum sinnum Íslandsmeistari og sex sinnum bikarmeistari. Þetta hvarflaði ekki að honum, þegar hann lék sér með vinum sínum á lóð við Ránargötu við hliðina á æskuheimilinu á Bræðraborgarstíg 4. „Við strákarnir í hverfinu vorum bara að leika okkur, spörkuðum bolta á milli tveggja húsveggja,“ rifjar hann upp. Þaðan lá leiðin meðal annars á Framnesvöllinn, þar sem hann var í fótbolta með Erni Steinsen, Þórólfi Beck og Kristni Jónssyni auk fjölda annarra stráka. „Fyrsti alvöruleikurinn var á Framnesvellinum,“ áréttar Gunnar, sem lék sjö A-landsleiki. Sérstaka athygli vakti þegar bræðurnir Gunnar, Bjarni og Hörður léku saman í landsliðinu á móti Bretum 1963.

Frítíminn í KR

Félagsstörf fyrir knattspyrnudeild KR tóku við áður en ferlinum lauk og Gunnar var ekki síður traustur hlekkur sem gjaldkeri eða varaformaður í stjórninni en á vellinum. „Ég var gjaldkeri þegar við réðum þjálfarana Walter Pfeiffer 1968 og Tony Knapp 1974 og því fylgdi mikið og minnisstætt amstur, en starfið fyrir KR var helsta áhugamálið og hafði algjöran forgang.“ Í því sambandi rifjar hann upp að hann hafi byrjað að byggja húsnæði fyrir fjölskylduna 1967, sem þau hjónin búi reyndar enn í. Þá hafi hann verið leikmaður samfara því að vera gjaldkeri deildarinnar. „Ég lét húsið standa fokhelt í heilt ár því ég mátti ekki vera að því að sinna því vegna starfa fyrir KR.“ Hann bætir við að stundum hafi verið falast eftir kröftum hans í hinum og þessum félagasamtökum en hann hafi ekki haft tíma til þess. „Allur frítíminn fór í KR.“

Gunnar skoraði fyrsta mark KR í Evrópukeppni, á móti Liverpool á Anfield, en liðin tóku fyrst þátt í Evrópukeppni 1964 og mættust í 1. umferð. Hann helgaði Tryggingamiðstöðinni starfskrafta sína og var forstjóri hennar um árabil. Hann segir að lífsstarfið vilji gjarnan gleymast, því þegar hann hitti fólk heilsi það sér fyrst og fremst vegna KR. Í því sambandi rifjar hann upp að hann hafi oft þurft að mæta á ýmsa viðburði heima og erlendis vegna vinnunnar. Eitt sinn hafi hann verið veðurtepptur austur á fjörðum eftir að hafa sótt þar aðalfund útgerðarfyrirtækis. Sér hafi verið boðið á árshátíð um kvöldið, þar sem hann hafi aðeins þekkt forstjóra fyrirtækisins. Að borðhaldi loknu hafi hann farið á snyrtinguna og þar hafi hópur manna rifist um fótbolta, en fyrr um daginn hafi leikur Liverpool og Manchester United verið sýndur í sjónvarpinu.

„Um leið og ég gekk út sagði ég við strákana að ég hefði spilað á Anfield. Þeir hlógu að mér en stuttu eftir að ég var sestur sá ég að strákarnir ræddu við forstjórann og skömmu síðar hópuðust þeir að mér. Forstjórinn hafði staðfest orð mín við þá og allt í einu var ég orðinn aðalmaðurinn í partíinu.“