Kontratenórinn Tim Mead syngur þekktar aríur með Sinfóníuhljómsveitinni.
Kontratenórinn Tim Mead syngur þekktar aríur með Sinfóníuhljómsveitinni. — Ljósmynd/Benjamin Eolavega
Árlegir aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 19.30. Á efnisskrá eru meðal annars hinn víðfrægi tvíleikskonsert Vivaldis í B-dúr fyrir fiðlu og selló í flutningi Dúós Eddu

Árlegir aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða í Eldborgarsal Hörpu í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 19.30. Á efnisskrá eru meðal annars hinn víðfrægi tvíleikskonsert Vivaldis í B-dúr fyrir fiðlu og selló í flutningi Dúós Eddu. Dúóið skipa þær Vera Panitch fiðluleikari og Steiney Sigurðardóttir sellóleikari sem báðar eru félagar í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fluttur verður líka forleikurinn að óperunni Talestri eftir Maríu Antoníu Walpurgis, prinsessu af Bæjaralandi. Þá syngur enski kontratenórinn Tim Mead aríur eftir Vivaldi og Händel, meðal annars hina fallegu „Ombra mai fu“ úr óperunni Xerxes. Mead þykir vera meðal fremstu söngvara á sínu sviði í heiminum í dag og hefur hlotið mikið lof fyrir hlýja, þétta rödd sína og heillandi túlkun.

Á tónleikunum hljómar einnig sinfónía nr. 40 eftir Mozart sem er meðal hans þekktustu og jafnframt dramatískustu verka. Stjórnandi á tónleikunum í kvöld er Jonathan Cohen sem er talinn einn fremsti barokkstjórnandi Bretlands. Cohen hefur stjórnað sinfóníuhljómsveitum beggja vegna Atlantsála, meðal annars Búdapest-hátíðarhljómsveitinni, Sinfóníuhljómsveit Hamborgar, Sænsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveitinni í Seattle. Hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands áður á aðventutónleikum árið 2017