Mark Julio Álvarez fagnar ásamt Enzo Hernández eftir að hafa komið Argentínumönnum í 2:0 gegn Pólverjum í gærkvöld.
Mark Julio Álvarez fagnar ásamt Enzo Hernández eftir að hafa komið Argentínumönnum í 2:0 gegn Pólverjum í gærkvöld. — AFP/Juan Mabromata
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland mætir Póllandi og Argentína mætir Ástralíu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta um næstu helgi. Þetta varð ljóst í gærkvöld þegar keppni í C- og D-riðli lauk á HM í Katar

HM í Katar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Frakkland mætir Póllandi og Argentína mætir Ástralíu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta um næstu helgi. Þetta varð ljóst í gærkvöld þegar keppni í C- og D-riðli lauk á HM í Katar.

Spennan var gríðarleg á lokamínútum leikjanna í C-riðlinum í gærkvöld þegar Mexíkó og Pólland voru orðin hnífjöfn að stigum og mörkum og útlit fyrir að fjöldi gulra spjalda myndi ráða hvort liðanna myndi fylgja Argentínu í 16-liða úrslit.

Argentína tryggði sér sigur í C-riðli með því að vinna Pólverja 2:0. Á sama tíma var Mexíkó 2:0 yfir gegn Sádi-Arabíu en í þeirri stöðu hefðu Pólland og Mexíkó verið hnífjöfn og Pólland farið áfram á færri gulum spjöldum. Til þess kom ekki. Sádi-Arabar skoruðu í lokin, Mexíkó vann bara 2:1 og Pólverjar gátu fagnað því að vera komnir áfram þrátt fyrir ósigurinn.

Alexis Mac Allister, leikmaður Brighton, valdi rétta tímann til að skora sitt fyrsta landsliðsmark fyrir Argentínu, en hann kom liðinu yfir gegn Póllandi þegar aðeins 55 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleiknum.

Argentínumenn höfðu mikla yfirburði og eftir að Julio Álvarez bætti við marki var bara spurning hve stór sigurinn yrði.

Lionel Messi brást bogalistin af vítapunktinum á öðru heimsmeistaramótinu í röð. Fyrir fjórum árum varði Hannes Þór Halldórsson frá honum í Moskvu en nú var það Wojciech Szczesny í Katar. Messi fékk ódýra vítaspyrnu á 38. mínútu en Szczesny varði glæsilega frá honum. Önnur vítaspyrnan sem Pólverjinn ver á mótinu.

Leckie hetja Ástrala

Ástralir hafa komið liða mest á óvart á þessu heimsmeistaramóti, ekki síst eftir 1:4-tap gegn Frökkum í fyrsta leiknum. Þeir knúðu fram 1:0-sigur á Túnis og þeim tókst að leggja Dani að velli, 1:0, í nánast hreinum úrslitaleik liðanna í gær.

Mathew Leckie skoraði sigurmarkið á 60. mínútu en hann er með reyndustu mönnum liðsins og lék í tíu ár í Þýskalandi, m.a. með Herthu Berlín og Mönchengladbach. Leckie spilar nú með Melbourne City í heimalandinu. Hann komst inn í vítateig Dana og renndi boltanum framhjá Kasper Schmeichel í markinu.

Betri en fyrirmyndirnar

Ástralía vann þar með Evrópuþjóð í annað skipti í lokakeppni HM og leikur í sextán liða úrslitum í annað sinn í sögunni. Áður var það árið 2006 þegar kappar á borð við Tim Cahill og Mark Viduka voru í aðalhlutverkum. Þeir voru fyrirmyndir núverandi landsliðsmanna sem hafa gert enn betur með því að vinna tvo leiki á HM, sem áströlsku landsliði hefur aldrei áður tekist.

Danir eru farnir heim og óhætt er að segja að þeir hafi valdið miklum vonbrigðum með frammistöðu sinni á mótinu.

Sætur sigur Túnis ekki nóg

Túnisar unnu á meðan sætan sigur á Frökkum, 1:0, en Didier Deschamps þjálfari Frakka hvíldi þar níu af byrjunarliðsmönnum sínum enda sæti í sextán liða úrslitum þegar í höfn. Túnis hefði náð öðru sætinu með þessum úrslitum ef Dönum hefði tekist að jafna metin gegn Áströlum í lokin.

Wahbi Khazri, einn af tíu leikmönnum Túnisa sem fæddust í Frakklandi, nánar tiltekið á eyjunni Korsíku, skoraði sigurmarkið á 58. mínútu eftir glæsilegan sprett. Hann hefur leikið allan ferilinn í Frakklandi, að undanskildum tveimur árum hjá enska liðinu Sunderland, þar sem hann skoraði m.a. í sigurleikjum gegn Manchester United og Chelsea. Khazri lék með franska 21-árs landsliðinu árið 2011. Árið 2012 ákvað hann hinsvegar að Túnis skyldi njóta krafta hans og þar hefur hann verið fyrirliði og helsti markaskorari landsliðsins undanfarin ár.

Túnisar hverfa á brott frá Katar með markatöluna 1:1 og fjögur stig en þeir munu eflaust naga sig lengi í handarbökin yfir tapinu gegn Áströlum sem í raun réð úrslitum í þessum riðli.

Fjögur sæti á hreint í dag

Fjögur lið í viðbót munu komast í sextán liða úrslitin í dag og kvöld þegar lokaumferðir E- og F-riðils fara fram. Í F-riðlinum eru Króatía og Marokkó með 4 stig og Belgía þrjú og slást um tvö sæti. Króatar mæta Belgum en Marokkó leikur við stigalausa Kanadamenn.

Í E-riðlinum í kvöld leikur Kostaríka við Þýskaland og Spánn við Japan. Spánn er með 4 stig, Japan 3, Kostaríka 3 og Þýskaland eitt, þannig að öll liðin geta enn farið áfram og í raun um tvo úrslitaleiki að ræða. Þjóðverjar eru þó ekki öruggir áfram með sigri og eru eina liðið í riðlinum sem þarf að treysta á fleiri en sjálfa sig.

Liðin fjögur sem fara áfram úr E- og F-riðli mætast síðan innbyrðis í sextán liða úrslitunum. Sigurlið riðlanna tveggja mæta liðunum sem enda í öðru sæti hins riðilsins.