Fjarskiptaráð Fulltrúar viðbragðsaðila undirrituðu samninginn.
Fjarskiptaráð Fulltrúar viðbragðsaðila undirrituðu samninginn.
Ríkislögreglustjóri, Neyðarlínan og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samkomulag um stofnun Fjarskiptaráðs. Því er ætlað að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og að fjalla um áframhaldandi þróun fjarskipta viðbragðsaðila, fylgjast með…

Ríkislögreglustjóri, Neyðarlínan og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér samkomulag um stofnun Fjarskiptaráðs. Því er ætlað að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og að fjalla um áframhaldandi þróun fjarskipta viðbragðsaðila, fylgjast með tækniþróun í fjarskiptum, hvar nýir sendar verði best staðsettir og kennslu og þjálfun. Þetta er gert til að efla samvinnu viðbragðsaðila vegna neyðar- og öryggisfjarskipta og vegna þess að úthlutað hefur verið tíðni fyrir nýtt farnet fjarskipta og öryggisfjarskipta um allt land.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, og Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, undirrituðu samkomulagið í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í gær. Í tilkynningu segir m.a. að neyðar- og öryggisfjarskipti séu viðbragðsaðilum afar mikilvæg og því nauðsynlegt að staða þeirra sé í stöðugri endurskoðun og uppbyggingu. Ný tíðni neyðar- og öryggisfjarskipta opni mörg tækifæri og nauðsynlegt sé að tryggja farsæla uppbyggingu og notkun kerfa sem byggð verða upp í náinni framtíð.