Griðastaður Audrey Padgett, framkvæmdastjóri SEA LIFE Trust í Vestmannaeyjum, ásamt mjöldrunum Litlu-Grá og Litlu-Hvít sem dvelja þar.
Griðastaður Audrey Padgett, framkvæmdastjóri SEA LIFE Trust í Vestmannaeyjum, ásamt mjöldrunum Litlu-Grá og Litlu-Hvít sem dvelja þar. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Griðastaður SEA LIFE Trust fyrir mjaldra og lunda í Vestmannaeyjum býður nú upp á sýndarheimsóknir í safnið. Þannig er hægt að heimsækja Vestmannaeyjar án þess að fara út fyrir kennslustofu eða stofuna heima og engin þörf á að aka langa leið eða taka Herjólf til Eyja

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Griðastaður SEA LIFE Trust fyrir mjaldra og lunda í Vestmannaeyjum býður nú upp á sýndarheimsóknir í safnið. Þannig er hægt að heimsækja Vestmannaeyjar án þess að fara út fyrir kennslustofu eða stofuna heima og engin þörf á að aka langa leið eða taka Herjólf til Eyja.

Audrey Padgett, framkvæmdastjóri griðastaðarins, segir að þau viti hvað það getur verið krefjandi ferðalag fyrir skólahópa að heimsækja Vestmannaeyjar, einkum á veturna. Þau hafi því hugsað hvort ekki væri hægt að opna griðastaðinn fyrir nemendum á annan hátt. „Við teljum að þetta geti verið skemmtileg leið til að fræða nemendur um það sem við gerum hér á griðasvæðinu og vonum að þetta veki áhuga hjá einstaklingum til að hugsa um störf á sviði dýraverndar,“ segir Audrey í fréttatilkynningu.

Fyrsti bekkurinn til að koma í sýndarheimsókn var 3. bekkur í Grunnskóla Hornafjarðar sem kom í heimsókn í september. Bekkurinn fékk að skoða í návígi hvernig dýraverndunarteymi SEA LIFE Trust hugsar um lundana sem búa á griðastaðnum, hvernig þeir eru fóðraðir og hvernig fylgst er með heilsu þeirra. Einnig lærðu þeir um lundabyggðina og lundatímabilið í Vestmannaeyjum.

Síðan voru mjaldrarnir Litla-Hvít og Litla-Grá heimsóttir þar sem nemendurnir fengu að fylgjast með umönnun þeirra og fræðast um ferðalag hvalanna frá Kína til Íslands 2019.

Sýndarheimsóknin fer fram í gegnum vefmyndavél og Zoom-forritið. Nemendurnir geta spurt spurninga auk þess að fræðast um starfið á griðastaðnum. Efni sýndarheimsóknanna er sniðið að þörfum skólahópa og tekur framsetningin mið af aldri nemendanna. Heimsóknin tekur 35-40 mínútur og er gert ráð fyrir spurningum. Verð fyrir skólahópa allt að 30 nemenda er frá 4.900 krónur.

Aðrir gestir geta einnig bókað sýndarheimsóknir í gegnum vefsíðu griðastaðarins. Hægt er að bóka dagsetningu og tíma heimsóknarinnar. Verð er frá 2.000 krónum fyrir hverja skráningu. Tekjurnar eru nýttar til að standa straum af dýraverndunarkostnaði griðastaðarins og er mikilvægur stuðningur fyrir góðgerðarsamtökin, samkvæmt tilkynningunni.