Heiður Þráinn og Lilja Alfreðsdóttir á Edduverðlaununum í haust.
Heiður Þráinn og Lilja Alfreðsdóttir á Edduverðlaununum í haust. — Morgunblaðið/Eggert
Kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson færði í gær íslensku þjóðinni kvikmyndaverk sín og tekjur af þeim að gjöf við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tók við gjöfinni og að afhendingu lokinni…

Kvikmyndagerðarmaðurinn Þráinn Bertelsson færði í gær íslensku þjóðinni kvikmyndaverk sín og tekjur af þeim að gjöf við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, tók við gjöfinni og að afhendingu lokinni var gestum boðið á sýningu á kvikmynd Þráins, Nýtt líf, frá árinu 1983 en hún hefur verið endurgerð stafrænt á Kvikmyndasafni Íslands.

Þráinn hlaut í haust heiðursverðlaun Íslensku sjónvarps- og kvikmyndaakademíunnar (ÍKSA) fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar en hann starfaði um árabil jöfnum höndum sem kvikmyndaleikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur. Voru verðlaunin afhent á Eddunni og sagðist Þráinn í þakkarræðu hafa verið með kvikmyndadellu frá unga aldri og reynt að fara eins oft í bíó og fjárhagurinn hefði leyft.

Hann nam við Dramatiska Institutet í Svíþjóð og lauk prófi í leikstjórn og kvikmyndaframleiðslu þaðan árið 1977. Eftir Þráin liggjar margar vinsælar kvikmyndir og hefur hann bæði leikstýrt þeim, skrifað handrit og framleitt. Þær sem hann hefur leikstýrt eru Líf-myndirnar vinsælu, þ.e. Nýtt líf, Dalalíf og Löggulíf, Jón Oddur og Jón Bjarni, Skammdegi, Einkalíf og Sigla himinfley.