Helga R. Einarssyni duttu þessar limrur í hug með morgunkaffinu: Morgunstund Vaknað og riðið á vaðið, vinsælt er sturtubaðið, kaffidropinn úr könnu sopinn og kíkt er í Morgunblaðið. Er á blaðinu ykkur þið ornið auðvitað birtist loks kornið sem mælinn fyllir og mörgum dillir, þá meina ég Vísnahornið

Helga R. Einarssyni duttu þessar limrur í hug með morgunkaffinu:

Morgunstund

Vaknað og riðið á vaðið,

vinsælt er sturtubaðið,

kaffidropinn

úr könnu sopinn

og kíkt er í Morgunblaðið.

Er á blaðinu ykkur þið ornið

auðvitað birtist loks kornið

sem mælinn fyllir

og mörgum dillir,

þá meina ég Vísnahornið.

Í bók sinni „Limrur fyrir land og þjóð“ segir Bragi V. Bergmann, að í Ljóðmælum Hrólfs Sveinssonar / Helga Hálfdánarsonar sé m.a. að finna Grafljóð 1 til 6 en í hverju grafljóði sé stutt lýsing á viðkomandi einstaklingi og hvert varð banamein hans. Að hætti Hrólfs yrkir Bragi nokkrar limrur sem bera yfirskriftina Ófarir. Þar feti hann brautina sem Hrólfur ruddi. Hér kemur sú fyrsta:

Skytta var Teitur að Tjörnum,

tíund' í röðinn' af börnum

hjónanna þar.

(Því miður hann var

borðaður seinna af björnum.)

Ófarir II

Það er stórhættulegt að ferðast um öræfi þessa lands. Það er hættuminna að sumarlagi en lífshættulegt um háveturinn. Margir láta þó viðvaranir sem vind um eyrun þjóta. „Óbyggðirnar kalla og ég verð að gegna þeim,“ sagði Magnús Eiríksson um árið og bætti við: „Ég veit ekki hvort eða hvernig eða hvenær ég kem heim.“

Sumir snúa aldrei heim eftir öræfaferð. Hér segir af Valgerði Vöku, sem kom líka við sögu í fyrstu limrubók Braga. Þá hvarf hún ofan í hvarf en lendir hér í mun verri málum:

Jökla kleif Valgerður Vaka,

og var þar af ýmsu að taka.

Hún lenti í villu,

varð úti á syllu

og er því á köldum klaka.

Snjáka eftir Þorstein Valdimarsson:

Þó að öðrum ói við snjó.

fæ ég aldrei nóg af snjó

– hvorki úti né inni –

og einu sinni

varð ég öll sömul snjóug af snjó!

„Ævisaga“ eftir Jónas Árnason:

Frændi minn Friðleifur togni,

var fæddur í Sogni í logni.

Og hann undi sér þar

uns hann áttræður var

og þá lést hann í logni í Sogni.