Jólaverslun Spáð er að jólahald kosti vísitölufjölskyldu 295 þús. kr.
Jólaverslun Spáð er að jólahald kosti vísitölufjölskyldu 295 þús. kr. — Morgunblaðið/Eggert
Búast má við því að verslun landsmanna yfir jólamánuðina í ár verði um 73.535 krónum meiri á mann en að jafnaði aðra mánuði ársins. Þetta jafngildir því um 295 þúsund kr. meiri útgjöldum fjögurra manna vísitölufjölskyldu vegna jólahaldsins að þessu sinni

Búast má við því að verslun landsmanna yfir jólamánuðina í ár verði um 73.535 krónum meiri á mann en að jafnaði aðra mánuði ársins. Þetta jafngildir því um 295 þúsund kr. meiri útgjöldum fjögurra manna vísitölufjölskyldu vegna jólahaldsins að þessu sinni. Þetta er árleg spá um jólaverslunina sem Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) birti í gær.

Er í spánni gert ráð fyrir að velta smásöluverslunar yfir jólamánuðina, nóvember og desember, aukist að nafnvirði um tæp 4,3% frá fyrra ári en að raunvirði dragist veltan þó saman um 1,7% frá fyrra ári. „Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana verði um 123,7 milljarðar kr. yfir jólamánuðina í ár, rúmum 5 milljörðum hærri en í fyrra miðað við breytilegt verðlag,“ segir í spá RSV.

Bent er á að samkvæmt niðurstöðum netkönnunar, sem gerð var í byrjun nóvembermánaðar meðal könnunarhóps þekkingarfyrirtækisins Prósents, sögðust tæp 26% aðspurðra ætla að verja 50-149 þúsund kr. í jólagjafir í ár og tæp 27,5% ætla að verja 150-299 þúsundum króna.

Spá um veltu í smásöluverslun yfir jólamánuðina á mann að meðtöldum virðisaukaskatti er sú að velta dagvöru á mann gæti orðið um 137 þúsund kr. á mann og þar af eru tæpar 29 þúsund kr. vegna jólahaldsins.