Nú er HM karla í fótbolta í fullum gangi þar sem flestir leikirnir hafa verið hin besta skemmtun, þótt markalaus jafntefli séu aðeins of mörg hingað til. Alltaf þegar mótið fer fram grípur um sig HM-æði hér á landi og er það vel skiljanlegt, ekki síst í skammdeginu

Gunnar Egill

Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Nú er HM karla í fótbolta í fullum gangi þar sem flestir leikirnir hafa verið hin besta skemmtun, þótt markalaus jafntefli séu aðeins of mörg hingað til.

Alltaf þegar mótið fer fram grípur um sig HM-æði hér á landi og er það vel skiljanlegt, ekki síst í skammdeginu.

Í janúar næstkomandi tekur eitt HM-æðið við af öðru þegar karlalandslið Íslands í handknattleik tekur þátt á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi.

Ég viðurkenni að spennan fyrir því móti fer stöðugt vaxandi enda Ísland með eitt mest spennandi lið heims.

Á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar síðastliðnum hafnaði liðið í 6. sæti og er eflaust staðráðið í að gera enn betur á HM. Ekki verður annað sagt en að leikmannahópur Íslands sé ógnarsterkur og þá á ég við 35 manna æfingahópinn.

Byrjunarlið sem samanstendur af Viktori Gísla Hallgrímssyni, Bjarka Má Elíssyni, Aroni Pálmarssyni, Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, Elliða Snæ Viðarssyni, Ómari Inga Magnússyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni er geysilega sterkt.

Utan þessa ætlaða sóknarbyrjunarliðs eru magnaðir leikmenn á borð við Björgvin Pál Gústavsson, Janus Daða Smárason, Óðin Þór Ríkharðsson, Hauk Þrastarson, Elvar Örn Jónsson og Ými Örn Gíslason.

Þeir tveir síðastnefndu eru háklassavarnarmenn ásamt Elliða Snæ og því ljóst að það er valinn maður í hverju rúmi bæði í vörn og sókn, og meira til.

Ég öfunda Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara ekkert af því að þurfa að velja 20 manna lokahóp.