— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opin nýársloka „Í desember fæ ég piparrótarsósu á heilann sem aldrei fyrr. Hún er unaðsleg með flestu kjöti og fullkomin á kalkúnasamloku. Lucas Keller vinur okkar og matreiðslumaður á The Coocoo's Nest kenndi okkur að jólakalkúnninn…

Opin nýársloka

„Í desember fæ ég piparrótarsósu á heilann sem aldrei fyrr. Hún er unaðsleg með flestu kjöti og fullkomin á kalkúnasamloku. Lucas Keller vinur okkar og matreiðslumaður á The Coocoo's Nest kenndi okkur að jólakalkúnninn sómir sér ekki síður vel í eggjaköku, salati eða þessari samloku. Við smellum (les. Tobba konan mín smellir) yfirleitt í þessa samloku á nýársdag og horfum á góða mynd,” segir Kalli um þessa dýrindissamloku sem smellpassar daginn eftir að kalkúnn hefur verið framreiddur á veisluborðinu.

200 g elduð kalkúnabringa

gott súrdeigsbrauð

piparrótarsósa (Horseradish Alioli), t.d. frá StoneWall Kitchen

tómatur

salat

súrar gúrkur

rauðlaukur

1 tsk. olía

1 tsk. balsamedik

Skerið kalkúninn í sneiðar.

Skerið laukinn í sneiðar og steikið við miðlungshita upp úr ediki og olíu uns hann er farinn að karamellast.

Skerið væna sneið af brauði, smyrjið með piparrótarsósu.

Raðið salati, tómat, rauðlauk og súrum gúrkum á brauðið og loks vænni sneið af kalkún.

Yndislegt!

Létt kósíkvöld

„Ég er mikið fyrir bæði White Russian og Espresso Martini en hér er komin Flat White Martini með mögrum snúningi. Þar sem Baileys light var að lenda í verslunum hérlendis hef ég ákveðið að nota það í stað mjólkur í allt í desember.”

50 ml Baileys light

20 ml vodka

25 ml espresso

ísmolar

kaffibaunir eða ljósasería

Kælið kokteilglasið með klökum.

Setjið öll hráefnin í kokteilhristarann og hristið með ísmolum í 15 sekúndur svo að drykkurinn nái að bindast og mynda þykka froðu.

Hellið kósíkvöldinu í kalt glasið. Skreytið með kaffibaunum eða jólaseríu og berið fram.

Baksviðsjólaorkuskot

„Baksviðs á jólatónleikum Baggalúts er ávallt hlaðborð með jólanarti og þar kennir ýmissa grasa. Það er mjög hentugt að grípa sér eitthvað smá af borðinu rétt áður en maður stígur á svið til að fá smá aukaorku og finna jólaandann koma yfir sig. Meistari Eyþór Gunnarsson kom mér upp á lagið með að setja piparrótarsósu á hangikjöt, enda smekkmaður mikill. Ég er hins vegar svo mikill ribbaldi að ég bætti laufabrauði við uppskriftina. Hún verður ögn flóknari fyrir vikið en ekkert sem einfeldningur eins og ég ætti ekki að ráða við."

smá hangikjöt

smá laufabrauð

smá piparrótarsósa

Takið væna flís af hangikjöti, þó ekki stærri en einn munnbita, og brjótið hæfilegt magn af laufabrauði.Setjið hangikjötið ofan á laufabrauðið.

Smyrjið piparrótarsósunni ofan á.