Í upphafi Svona var umhorfs í Lækjargötu um það leyti sem Sigfús Eymundsson hóf verslunarrekstur þar.
Í upphafi Svona var umhorfs í Lækjargötu um það leyti sem Sigfús Eymundsson hóf verslunarrekstur þar. — Ljósmynd/Sigfús Eymundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er merkileg saga og Eymundsson hefur fylgt Íslendingum alveg frá þeim degi er fyrsta verslunin var opnuð,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri og einn eigenda Pennans Eymundsson. Á þriðjudaginn voru 150 ár liðin frá því að…

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er merkileg saga og Eymundsson hefur fylgt Íslendingum alveg frá þeim degi er fyrsta verslunin var opnuð,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri og einn eigenda Pennans Eymundsson.

Á þriðjudaginn voru 150 ár liðin frá því að athafnamaðurinn Sigfús Eymundsson opnaði fyrstu bókaverslunina á Íslandi á horni Austurstrætis og Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur. Sigfús var maður marghamur. Hann nam bókband í Kaupmannahöfn, lærði ljósmyndun í Bergen og opnaði fyrstu ljósmyndastofuna í Reykjavík árið 1867. Þá var hann milligöngumaður um skipasiglingar og flutninga fjölda Íslendinga vestur um haf. Það var hins vegar Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar sem átti eftir að festa nafn hans rækilega í sessi hjá þjóðinni. Verslunin er fyrir löngu orðin hálfgerð stofnun í íslensku samfélagi.

Á sama stað í yfir 100 ár

Í yfirliti um sögu verslunarinnar á vef Pennans Eymundssonar segir að bókaverslunin hafi frá upphafi notið mikils trausts og virðingar og sett mark sitt á bæjarlífið. „Þangað lagði fólk leið sína til að kaupa bækur, ritföng, miða á viðburði og ýmislegt annað. Sigfús hóf bókaútgáfu árið 1886 og lagði áherslu á vandaðar bækur sem höfðu ótvírætt menningargildi, sem og nytsamar fræðibækur fyrir almenning. Sigfús flutti jafnframt inn ýmsar vörur og var til dæmis fyrstur manna til að flytja inn peningaskápa, sjálfblekunga og ritvélar. Hann var líka fyrstur til að selja póstkort á Íslandi, en ljósmyndirnar á þau tók hann sjálfur,“ segir þar.

Ingimar segir í samtali við Morgunblaðið að ánægjulegt sé að fagna þessu stórafmæli verslunarinnar. „Við ætlum að fagna þessum tímamótum með formlegum hætti með starfsfólki og viðskiptavinum í verslunum Pennans Eymundsson um helgina. Þar verður ýmislegt í gangi og góð tilboð á alls kyns vörum,“ segir forstjórinn.

Ingimar segir að það segi sína sögu um hversu rótgróin verslun Penninn Eymundsson er að hún hafi verið á sama stað í Austurstræti í yfir hundrað ár. „Reyndar ekki í sama húsinu alla tíð en árið 1920 var Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar flutt í húsið í Austurstræti 18. Síðar var nýtt hús byggt á grunni þess gamla og meðan á byggingu þess stóð var verslunin flutt í Aðalstræti 6, gamla Morgunblaðshúsið. Hinn 19. nóvember árið 1960 var verslunin aftur komin á sinn stað í Austurstræti.“

Selur mikið til ferðamanna

Forstjórinn segir að mikil tímamót hafi orðið í apríl 1996 þegar Penninn keypti Eymundsson. „Þá fara þessi vörumerki að vinna saman og styrkja hvort annað. Það gerir það að verkum að fyrirtækið hefur lifað af miklar breytingar á síðustu áratugum en ekki síst síðustu árum.“

Því verður ekki neitað að miklar breytingar hafa átt sér stað. Þeir tímar sem ritföng og bækur voru meira en nóg eru liðnir. Alls eru nú reknar 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn Eymundsson. Þá rekur félagið húsgagnaverslun, fyrirtækjaþjónustu og heildverslun. Þar að auki rekur Penninn þrjár ferðamannaverslanir undir nafninu The Viking og eina undir nafninu Islandia.

„Við höfum reynt að aðlaga okkur að breyttu landslagi, meðal annars með því að selja ferðamannavörur. Þær flytjum við sjálf inn og látum framleiða. Svo má ekki gleyma því að ferðamennirnir kaupa mikið af bókum, til dæmis bækur Arnaldar, Yrsu og Ragnars en einnig Laxness. Við seljum árlega 3-4.000 eintök af Sjálfstæðu fólki á ensku. Penninn er líka einn stærsti húsgagnasali á Íslandi, sérstaklega á skrifstofumarkaði. Starfsemin í dag byggist á nokkrum stoðum og þannig komast menn í gegnum þetta. Við búum líka að því að hafa gott starfsfólk og margir hafa orðið mikla reynslu. Þetta byggist allt á því. Reksturinn hefur gengið vel í ár og þessi tvö rótgrónu vörumerki, Penninn og Eymundsson, hafa staðist tímans tönn. Lykilatriðið er svo að þau vinni vel saman og standi saman.“