Lögreglan Vitundarvakning gegn kynferðisofbeldi heldur áfram.
Lögreglan Vitundarvakning gegn kynferðisofbeldi heldur áfram. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan skráði tilkynningar um 195 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins 2022, sem samsvarar 26% fjölgun frá því í fyrra. Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um 22 nauðganir á mánuði hjá lögreglunni

Lögreglan skráði tilkynningar um 195 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins 2022, sem samsvarar 26% fjölgun frá því í fyrra. Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um 22 nauðganir á mánuði hjá lögreglunni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot. Hana er að finna á vefsvæði lögreglunnar.

Lögreglan skráir bæði hvenær brot eru tilkynnt og hvenær þau áttu sér stað. Oft líður tími á milli þess að kynferðisbrot á sér stað og tilkynnt er um það til lögreglu. „Þegar horft er til tíma brots, var tilkynnt um 146 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu níu mánuði ársins eða 16 nauðganir á mánuði, sem samsvarar 16% aukningu frá sama tímabili í fyrra,“ segir í frétt lögreglunnar.

Lögreglan skráði alls 490 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu. Það samsvarar tæplega 2% fækkun tilkynninga á milli ára og tæplega tveimur tilkynningum til lögreglu að meðaltali á dag. Skráðum blygðunarsemisbrotum og kynferðisbrotum gegn börnum fækkaði en brotum gegn kynferðislegri áreitni og gegn kynferðislegri friðhelgi fjölgaði. Brotin eru svipuð að fjölda yfir sama tímabil í fyrra og árið 2019. Þau voru færri árið 2020 þegar Covid-19 faraldur stóð sem hæst. Í sumum tilvikum er tilkynnt um eldra brot, en um 20% tilkynntra brota voru eldri brot, þ.e. áttu sér stað fyrir árið 2022.

Meðalaldur sakborninga í kynferðisbrotamálum er 35 ár. Um 95% grunaðra eru karlar, flestir 18-45 ára. Þó eru um 10% grunaðra undir 18 ára.