Frábær Bardém fer á kostum sem Blanco. Hér fer hann yfir auglýsingu þar sem stendur að réttvísin noti vog.
Frábær Bardém fer á kostum sem Blanco. Hér fer hann yfir auglýsingu þar sem stendur að réttvísin noti vog.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís og Sambíóin Álfabakka El buen patrón ★★★½· Leikstjóri og handritshöfundur: Fernando León de Aranoa. Aðalleikarar: Javier Bardém, Almudena Amor, Manolo Solo, Óscar de la Fuente og Rafa Castejón. Spánn, 2021. 116 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

El buen patrón, eða Góði stjórinn, var framlag Spánar til Óskarsverðlauna í ár og hlaut myndin sex verðlaun á spænsku kvikmyndaverðlaununum Goya og 20 tilnefningar, hvorki meira né minna. Hún er nú ein þeirra kvikmynda sem tilnefndar eru sem besta gamanmynd á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum sem afhent verða í Hörpu 10. desember og myndi líklegast falla í flokk tragíkómískra kvikmynda. Góði stjórinn er ekki sprenghlægileg bíómynd en hún er svört kómedía og fyndnust þegar fer að halla undan fæti hjá aðalpersónunni, Julio Blanco, forstjóra verksmiðju sem framleiðir vogir af ýmsum gerðum. Blanco er frábærlega leikinn af Javier Bardém sem ber myndina uppi með heillandi persónusköpun sinni og stórkostlegum svipbrigðum sem segja meira en þúsund orð (takið til að mynda eftir lokaatriðinu, þið sem ætlið að sjá myndina í bíó).

Blanco er erfingi að fyrirtæki föður síns, Balanzas Blanco eða Blanco-vogir og í byrjun myndar kemur hann fyrir sem hinn elskulegasti náungi sem virðist vera umhugað um undirmenn sína og vilja allt fyrir þá gera. Heldur hann tilfinningaþrungna ræðu um að starfsmennirnir séu honum sem fjölskylda og að þeirra vandamál séu hans vandamál. Er hann nær grátandi yfir því að þurfa að kveðja nokkra sem eru að yfirgefa fyrirtækið.

Fljótlega kemur í ljós að Blanco er ekki allur þar sem hann er séður og að hann hneigist líka til ungra kvenna. Ein slík, Liliana, er nýbyrjaður lærlingur hjá fyrirtækinu og Blanco hefur augastað á henni frá fyrsta degi. Hann má þó varla vera að því þar sem hann hefur í mörg horn að líta á þeirri rúmu viku sem kvikmyndin spannar. Allt þarf að vera eins og best verður á kosið í fyrirtækinu því von er á dómnefnd sem mun að öllum líkindum verðlauna fyrirtækið fyrir framúrskarandi rekstur. Yrði það enn einn verðlaunagripurinn í safn hins hégómlega Blancos. Vandinn er hins vegar sá að reksturinn gengur alls ekki nógu vel og hávær mótmæli fyrrverandi starfsmanns við innganginn eru aðeins hluti af vandræðum Blancos. Vogin sem prýðir hliðið við innganginn er líka vanstillt og táknræn fyrir sálarheilsu forstjórans sem virðist hraka með degi hverjum.

Góður hópur leikara

Bardém er einkar slepjulegur í hlutverki Blancos sem virðist aðeins koma fólki til hjálpar ef hann græðir á því sjálfur. Þó örlar fyrir votti af góðmennsku sem alltaf víkur á endanum fyrir sérhagsmunum. Heima fyrir er Blanco eins mikill leiðindapúki og hugsast getur, annars hugar og fámáll og þegar eiginkonan spyr hvað hann sé að hugsa er svarið alltaf „ekkert“. Eiginkonan virðist vön þessum leiðindum og segir endurtekið í myndinni að hún hafi ætlað að segja honum eitthvað afar mikilvægt en muni bara ekki hvað. Þegar hún svo loksins man það umturnar það öllu með kostulegum hætti, svo ekki sé meira sagt.

Þótt ekki sé sagan ýkja frumleg í Góða stjóranum kemur það lítið að sök því myndin er skemmtileg og þá einkum seinni hlutinn og leikarahópurinn er auk þess virkilega góður. Bardém er þungur á sér sem forstjórinn og frábær með sín mörgu og ólíku svipbrigði og tilfinningasveiflur. Amor stendur sig líka vel í hlutverki hinnartælandi Liliönu og Solo er bæði brjóstumkennanlegur og óþolandi í hlutverki framleiðslustjórans Miralles sem virðist vera að missa vitið. Þá er Óscar de la Feunte bráðfyndinn í hlutverki fyrrverandi starfsmanns sem sagt hefur verið upp og neitar að hætta mótmælum sínum við inngang fyrirtækisins.

Það sem helst mætti finna að myndinni er ákveðið ójafnvægi í þráðum sögunnar. Einn þeirra vegur of þungt í heildina, hliðarsaga sem tengist framleiðslustjóra Blancos, Miralles. Hún fær of mikið pláss og tíma og kemur það niður á sögunni í heild. Þeir hlutar sem snúa að Liliönu og mótmælandanum eru mun skemmtilegri og myndin nær í þeim hvað bestu flugi, bæði í drama og spaugi.

Engu að síður er Góði stjórinn skemmtileg kvikmynd og kærkomin fyrir þá sem vilja sjá fleiri spænskar myndir í bíó, þar með talinn ofanritaðan.