Einar Örn Ólafsson er stjórnarformaður og fer jafnframt fyrir félaginu sem er stærsti eigandi flugfélagsins Play.
Einar Örn Ólafsson er stjórnarformaður og fer jafnframt fyrir félaginu sem er stærsti eigandi flugfélagsins Play. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Viðtal Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is „Ég hef fulla trú á þessu verkefni og tel að félagið stefni á stöðugan rekstur,“ segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, í samtali við Morgunblaðið. Play lauk í gær við hlutafjáraukningu þar sem hlutafé félagsins var aukið um 2,3 milljarða króna.

Viðtal

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Ég hef fulla trú á þessu verkefni og tel að félagið stefni á stöðugan rekstur,“ segir Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, í samtali við Morgunblaðið. Play lauk í gær við hlutafjáraukningu þar sem hlutafé félagsins var aukið um 2,3 milljarða króna.

Nokkuð hefur verið fjallað um stöðu og rekstur Play eftir að félagið birti uppgjör þriðja ársfjórðungs í byrjun nóvember. Tap félagsins á tímabilinu nam um 2,9 milljónum Bandaríkjadala. Óhætt er að segja að það hafi komið nokkuð á óvart, þar sem þriðji ársfjórðungur er alla jafna besti tíminn í rekstri flugfélaga. Tap félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur þá um 28,4 milljónum dala, eða um fjórum milljörðum króna. Sama dag og uppgjörið var kynnt var tilkynnt að ráðist yrði í hlutafjáraukningu og að 20 stærstu hluthafar félagsins hefðu samþykkt að taka þátt í henni.

Einar Örn fer fyrir stærsta hluthafa félagsins, fjárfestingafélaginu Fiskisundi, sem fer með 8,6% hlut. Aðspurður segir hann að ekki sé ráðist í hlutafjáraukningu nú af illri nauðsyn heldur til að styrkja stöðu félagsins.

„Reksturinn gengur að mestu samkvæmt áætlun, þó vissulega hafi komið upp atriði sem erfitt var að sjá fyrir,“ segir hann og nefnir til sögunnar hátt olíuverð í kjölfar stríðsins í Úkraínu og mikla óreiðu á flugvöllum beggja vegna Atlantshafsins þegar flug tók við sér á ný eftir heimsfaraldur.

„Við horfum þó til bjartari tíma og gerum ráð fyrir betri rekstri næsta sumar,“ segir Einar Örn.

Hikstarnir muni hverfa

- Eins og þú nefndir þá kunna að vera ýmsar skýringar á því af hverju tekjur félagsins hafa byggst upp hægar en gert var ráð fyrir. Birgir Jónsson, forstjóri Play, hefur líka nefnt þær en einnig að sala flugmiða í ágúst og september hafi verið nokkuð undir væntingum þar sem Ísland var uppselt eins og hann komst að orði. En hvernig horfir þetta við ykkur til lengri tíma?

„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum bjartsýn á að tekjur félagsins muni aukast og reksturinn komast í betra jafnvægi,“ segir Einar Örn.

„Við vitum hvað það er sem þarf að bæta og laga. Starfsemi flugvalla er að komast í betra horf, svo ég nefni dæmi, þannig að fólk mun bóka töskur með sér ólíkt því sem það gerði síðastliðið sumar. Olíuverð mun ná jafnvægi, erlendum ferðaskrifstofum sem bóka með okkur fer fjölgandi, við sjáum fram á aukna sölu í frakt og þannig má áfram telja.“

Þá segir Einar Örn að það sem snýr að flugi gangi almennt vel, vélar félagsins séu að fara í loftið á réttum tíma, að skila fólki á áfangastað á sanngjörnu verði og að Play felli sjaldnar niður ferðir en helstu keppinautar þess.

„Allt hitt sem ég nefndi er eitthvað sem við sjáum bót á,“ segir hann.

Rými fyrir fleiri vélar

Það er ljóst að ferðaþjónustan hér á landi tók hraðar við sér en gert hafði verið ráð fyrir eftir heimsfaraldurinn, sem varð meðal annars til þess að erfitt reyndist að finna hótel og bílaleigubíla síðla sumars. Það verður þó ekki hjá því komist að spyrja Einar Örn, þar sem þeir hafa sjálfir haft orð á því að Ísland hafi verið uppselt, hvort verið sé að búa til eftirspurn sem ekki sé innstæða fyrir.

Hann tekur ekki undir það og bendir á að hótelrýmum, þá sérstaklega í Reykjavík, muni fjölga næsta sumar og telur að ferðaþjónustan nái betra jafnvægi heilt yfir.

„Við lögðum af stað við uppbyggingu á þessu félagi af því að við höfum trú á því að Ísland verði eftirsóttur áfangastaður til lengri tíma og að félag sem þetta geti, um leið og það flytur fólk til og frá landinu, tekið þátt í samkeppni við önnur félög í flugi yfir hafið,“ segir Einar Örn.

„Ef við horfum 5-6 ár aftur í tímann, þegar umsvif ferðaþjónustunnar voru nálægt hámarki, þá voru um 50 flugvélar með heimahöfn á Íslandi ef þannig má að orði komast, fyrir utan öll erlendu félögin sem hingað flugu. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvað þær geta verið margar en við töldum ólíklegt að Icelandair eða önnur erlend félög myndu fylla í þetta gat sem hafði myndast á markaði.“

Starfsemin ólík Wow air

- Við erum þá að tala um þann tíma sem Wow air starfaði, en það flug endaði nú ekki vel.

„Nei, enda lítum við ekki þannig á að við séum framhaldsútgáfa af því félagi. Aftur á móti tóku margir af fyrrverandi starfsmönnum Wow þátt í stofnun Play og það fólk er reynslunni ríkara. Það er þó margt ólíkt í rekstri og starfsemi félaganna,“ svarar Einar Örn að bragði.

- Fyrrverandi eigandi Wow air var mjög upptekinn af því að tala um Wow air í samanburði við Icelandair, að félagið yrði stærra en Icelandair og svo framvegis. Maður heyrir þessa orðræðu ekki frá ykkur, er einhver ástæða fyrir því?

„Ég ber mikla virðingu fyrir því sem Skúli Mogensen gerði með uppbyggingu Wow air, svo það sé sagt. En til að svara spurningu þinni, þá hefur maður stundum séð forsvarsmenn nýrri flugfélaga skjóta föstum skotum á eldri flugfélög. Það gera þeir yfirleitt í þeim tilgangi að draga að sér athygli. Við þurfum ekki á því að halda, það vita allir á Íslandi af Play og við þurfum bara að keppa við önnur flugfélög á okkar forsendum,“ segir Einar Örn.

Ekki erfið samtöl við hluthafa

Að lokum er vert að spyrja Einar Örn að því hvort samtölin við hluthafa um að koma með aukið fjármagn inn í félagið hafi reynst erfið. Hann segir svo ekki vera, hluthafar hafi fengið kynningu á því hvernig félagið hyggst byggja upp starfsemina á næstunni og í kjölfarið tekið upplýsta ákvörðun um að styðja frekar við reksturinn. Þá segir hann að félagið fari vel statt inn í veturinn og aðspurður segir hann að ekki standi til að nýta aukið hlutafé í rekstur.

„Þetta fjármagn er að öllu óbreyttu að fara að sitja í banka og safna vöxtum,“ segir hann og bætir við að aukið hlutfé styrki stöðu félagsins, til dæmis gagnvart birgjum, söluaðilum, leiguaðilum og þannig megi áfram telja.

„Ég nefndi hér í upphafi að ég hefði trú á verkefninu og hef raunar aldrei verið eins bjartsýnn á framtíð félagsins og ég er nú. Hið sama gildir um hluthafa og ekki síst stjórnendur og starfsfólk félagsins. Við ætlum að halda áfram að byggja félagið upp,“ segir Einar Örn að lokum.