Þórdís Erlingsdóttir fæddist í Keflavík 6. október 1962. Hún lést á heimili sínu í Innri-Njarðvík 18. nóvember 2022.

Foreldrar Þórdísar eru Jóhanna Þorbjörg Sigurðardóttir, f. 11.11. 1944, og Erling Þór Þorsteinsson, f. 2.11. 1940, d. 4.11. 2018. Systur Þórdísar eru Elísabet Dröfn, f. 13.9. 1974, og Konný Sif, f. 18. febrúar 1980.

Þórdís lætur eftir sig eiginmann, Jón Valgeirsson, f. 4.7. 1959, og einn son, Ívar Örn, f. 7.3. 1997, en þau eiga þrjá aðra syni saman sem eru látnir: Agnar Mar, f. 11.11. 1982, d. 26.9. 1985, Hersi Mar, f. 28.12. 1986, d. 10.7. 2020, og Alexander Örn, f. 19.3. 1990, d. 16.4. 1995.

Þórdís ólst upp í Bolungarvík, en hún bjó á nokkrum stöðum í gegnum tíðina, þar á meðal Reykjavík, Keflavík, Ísafirði, Þýskalandi og Höfnum. Hún starfaði í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum lengst á sinni tíð, en við umönnunarstörf í Reykjavík líka. Þórdís flutti ásamt Jóni til Vestmannaeyja eftir gos og var lengst þar. Árið 2012 flutti Þórdís ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ þar sem hún lést.

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 1. desember 2022, klukkan 15.

Stórt skarð hefur verið höggvið í líf okkar, eina ferðina enn. Ekki óraði okkur feðga fyrir því að þurfa að kveðja klettinn í lífi okkar í hinsta sinn á jafn ótímabæran hátt. Skyndilega hefur þú gengið út af leiksviði lífsins og svefn þinn orðinn eilífur. Blákaldur raunveruleikinn sem blasir við okkur hérna vökumegin við lífið er djúpstæður og hryggilegur. Söknuðurinn er þungbær og sársaukafullur en ófáar og ómetanlegar minningar um þig munu koma okkur úr spori í hversdagsleikanum. Þrátt fyrir að hann sé óhugsandi án þín.

Við sjáum þig ljóslifandi fyrir okkur. Við sjáum þig brosa. Við heyrum rödd þína hljóma í eyrum okkar og hlátur þinn ómar. Það er erfitt til þess að hugsa að það sem við heyrum og sjáum fyrir okkur er á augabragði orðin fjarstæðukennd minning. Minning um höfuð fjölskyldunnar. Góðu, fórnfúsu, hjartahlýju, tryggu, hugulsömu og einstöku konuna sem gerði lífið að því sem það er – eða var. Konuna sem alltaf var hægt að reiða sig á. Konuna sem var okkar kjölfesta. Þannig munum við minnast þín.

Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um þig og var oft þyrnum stráð. Þrátt fyrir að stór hluti þess hafi einkennst af sorg og sút þá auðgaðir þú líf okkar og allra þeirra sem voru þér nákomnir. Þú varst mörgum svo margt. Við tveir sitjum eftir í jarðneska lífinu og reynum að herða upp hugann og hlúa hvor að öðrum. Reynum að friða sorgina í brjóstum okkar við þá tilhugsun að nú séuð þið fjögur; þú, Agnar Mar, Alexander Örn og Hersir, öll sameinuð á öðru tilverusviði. Einn daginn munum við öll sameinast þar. Öll sex. Fullmönnuð fjölskylda. Þangað til munum við reyna að lifa lífinu með reisn og halda heiðri þínum og öllum dýrmætu minningunum um þig á lofti.

Minning um góða eiginkonu og bestu mömmu á jarðríki mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Takk fyrir allt sem þú ert okkur.

Þínir,

Jón og Ívar Örn.