Áslaug Bernhöft fæddist í Reykjavík 16. apríl 1933. Hún lést á Hrafnistu við Sléttuveg 18. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Kristrún Kristinsdóttir Bernhöft, f. 5.11. 1908, d. 8.2. 1990, og Jóhann Gotfred Bernhöft stórkaupmaður, f. 5.1. 1905, d. 29.9. 1964.

Þau systkinin voru fjögur: Elst var Áslaug, þá Þór, f. 11.5. 1938 en lést 28.10. sama ár, þriðja er Lára B. Miner, f. 8.6. 1940, og yngstur Birgir Kristinn, f. 11.4. 1948.

Eiginmaður Áslaugar var Jón Bjarni Þórðarson frá Akranesi, f. 19.2. 1932. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 25.5. 2008. Þau gengu í heilagt hjónaband 5.11. 1953.

Synir þeirra eru: 1) Ólafur Þór, f. 13.3. 1954, maki Þórey Björk Þorsteinsdóttir, f. 1.5. 1954. Börn þeirra eru Hilda Björk, f. 29.2. 1972, d. 17.3. 1973, Laufey Björk, f. 29.7. 1976, maki Jakob Halldórsson, Jón Orri, f. 11.3. 1985, Áslaug Eik, f. 13.6. 1994, og Jökull Steinn, f. 13.6. 1994. 2) Þórður, f. 22.11. 1960, sonur hans og Aðalheiðar Þorbergsdóttur er Jón Bjarni, f. 29.4. 1994. Barnabarnabörnin eru fimm talsins.

Áslaug útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands árið 1952. Á þeim árum eignaðist hún vinkonur og vini til lífstíðar. Saumaklúbburinn úr Versló hefur haldið saman allar götur síðan. Eiginmaður hennar, Jón Bjarni, starfaði í verslunarrekstri og síðast átti hann og rak Breiðholtskjör. Hún var félagslega sinnuð, virk í félagsmálum og þau hjón bæði. Áslaug starfaði til áratuga með kvenfélaginu Hringnum. Hún stundaði útiveru og golf ásamt eiginmanni sínum og vinum. Þau hjónin áttu á sínum tíma sitt annað heimili í Flórída.

Útför hennar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 1. desember 2022, klukkan 13.

Sofnar drótt, nálgast nótt,

sveipast kvöldroða himinn og sær.

Allt er hljótt, hvíldu rótt.

Guð er nær.

(HT)

Þetta er kvöldsöngur kvenskáta. Kom hann upp í huga minn þar sem hún Áslaug mín starfaði sem ung stúlka í skátahreyfingunni.

Ég var svo lánsöm að fá að sitja hjá henni mágkonu minni stund úr degi hálfum sólarhring áður en hún kvaddi. Ég fann og vissi að hún þekkti mig. Hún var svo friðsæl og falleg og er ég spurði hvort hún fyndi til svarað hún skýrt nei.

Ég gleymi aldrei deginum sem Nonni bróðir kom með Áslaugu upp á Akranes í fyrsta skipti. Man enn hvernig hún var klædd í bleika blússa með hvítum kraga og fallegt pils, ég 9-10 ára. Hún var svo falleg og þau voru svo ástfangin, þá og alla tíð. Glæsileg hjón. Ég var mikið hjá Áslaugu og Nonna þegar ég var unglingur. Fyrst í Úthlíðinni, fyrstu íbúðinni þeirra, þegar Óli Þór var lítill. Mér fannst gaman að kynnast litla frænda mínum. Nonni var þá í siglingum á Tröllafossi. Ég unglingurinn fékk að fara suður og vera hjá mágkonu minni sem var mér alla tíð sú systir sem ég átti ekki. Okkur Áslaugu varð aldrei sundurorða. Áslaugu var margt til lista lagt, enda mikill fagurkeri og smekkmanneskja. Ég á marga fallega handmálaða hluti frá henni. Áslaug og Nonni áttu alla tíð fallegt heimili. Hún var einstaklega flink í matargerð og ekki voru kökurnar síðri, enda héldu þau margar veislur fyrir fjölskyldu og vini.

Ekki man ég hve mörg gamlaárskvöld við fjölskyldan vorum hjá þeim í Stigahlíðinni. Allavega þar til börnin okkar voru orðin stór og vildu vera með vinum á Selfossi.

Ég vil þakka Áslaugu minni fyrir alla þá hjálp sem hún veitti mér, áður en ég giftist Steingrími og var ein með börnin mín eins og tveggja ára. Þá var ég nokkrum sinnum alveg hjá þeim Áslaugu og Nonna á Langholtsveginum þegar foreldrar mínir fóru til útlanda.

Þau héldu upp á 50 ára afmælið mitt á Flórída og við Steingrímur vorum þar í góða matnum hjá Áslaugu í tvær vikur.

Þegar Nonni kvaddi svo skyndilega og yngri bróðir minn fjórum mánuðum síðar sóttum við styrk hvor til annarrar en það var mjög náið samband milli okkar systkina.

Elsku Áslaug, þér verður aldrei fullþakkað fyrir allt sem þú varst mér og mínum. Ég bið góðan Guð að styrkja syni þína og þeirra fjölskyldur í sorginni, og systkini þín, Láru og Birgi. Far þú á Guðs vegum.

Hanna Maja,

Jóhanna María Þórðardóttir.