Guðný Halldóra Jónsdóttir fæddist 22. janúar 1935. Hún lést 21. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Helga Illugadóttir, f. 7.10. 1901, d. 26.1. 1991, og Jón Jónsson söðlasmiður, f. 9.11. 1896, d. 21.3. 1965. Þau skildu. Seinni maður hennar var Theodór Þorláksson, f. 5.8. 1896, d. 3.3. 1978.

Alsystir Guðnýjar er Guðbjörg B. Jónsdóttir, f. 29.12. 1927. Sammæðra bræður eru Guðmundur Theodórsson, f. 5.5. 1938, d. 3.9. 2020, og Guðlaugur Theódórsson, f. 13.5. 1944.

Systkini samfeðra eru Gunnar Jónsson, f. 31.7. 1938, d. 19.4. 2015, Greta Jónsdóttir, f. 3.1. 1942, og Kolbrún Jónsdóttir, f. 8.7. 1943.

Börn Guðnýjar eru: 1) Helga Björk Birgisdóttir, f. 12.9. 1960. Maki Guðmundur Guðbrandsson, f. 21.3. 1960. Börn þeirra eru Daldís Ýr og Arnþór Daði. 2) Óskar Ingi Stefánsson, f. 11.1. 1967. Sambýliskona Katarzyna Jakubowska, f. 27.5. 1983. Börn þeirra eru Alexander Breki og Oliver Darri. 3) Kjartan Guðfinnur Stefánsson, f. 9.6. 1969. Börn hans eru María Katrín og Hekla Rán.

Langömmubörnin eru fimm.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 1. desember 2022, klukkan 13.

Ferðalag ömmu til annarra heima er hafið. Ferðalagið hófst í raun þegar hún gat ekki lengur búið ein á Framnesveginum. Það var sérstök tenging á milli okkar ömmu. Ég var eina barnabarnið í fjórtán ár og fékk óskipta athygli. Amma þekkti mig vel og hún vildi meina að hún vissi alltaf hvernig mér liði. Samband okkar styrktist með árunum og við gátum rætt um heima og geima löngum stundum. Hún sagði mér sögur frá uppvaxtarárum sínum, þegar hún kynntist mömmu sinni og systur þegar hún var orðin stálpuð, árunum fyrir vestan eða af Evrópureisu sem hún fór í með vinkonu sinni. Amma sagði ekki mikið í óspurðum fréttum, en þegar réttu augnablikin komu fékk ég ómetanlegar sögustundir. Á háskólaárunum átti ég alltaf skjól hjá ömmu og afa og eftir útskrift bauðst mér að flytja í risið til þeirra svo ég gæti safnað fyrir íbúðarkaupum. Eftir að ég flutti aftur varð fastur liður að koma við hjá ömmu með bleikan snúð. Hún var sælkeri og sló sjaldan hendinni á móti sætabrauði. Amma var rútínukona. Hún gerði sömu hlutina, á sama tíma og í sömu röð. Ótrúlega skipulögð, með allt í röð og reglu og braut jafnvel saman plastpoka. Amma hafði áhuga á okkur afkomendum sínum og því sem við vorum að gera hverju sinni. Hún saumaði, prjónaði, las og hlustaði á útvarp en horfði aldrei á sjónvarp. Sat iðulega heima í stofu með tebollann sinn, prjónana og með köttinn í fanginu. Það var henni þungbært þegar sjónin fór að daprast og minnið fór að svíkja hana. Amma kvartaði þó aldrei og gerði það orðalaust sem ætlast var til af henni. Alltaf til í að aðstoða aðra en sjálf bað hún sjaldan um greiða. Hún starfaði lengi sem matráður á leikskólanum Hagaborg og sinnti sínu starfi með sóma. Hafði þó aldrei neinn sérstakan áhuga á mat eða matargerð en þótti vænt um fólkið sem hún kynntist þar og hafði gaman af börnunum. Amma átti að mörgu leyti erfið uppvaxtarár. Hún ólst upp hjá fósturforeldrum en flutti níu ára gömul vestur í Reykhólasveit til mömmu sinnar. Þá kynntist hún líka Guggu eldri systur sinni en þær áttu einstaklega gott samband. Þær töluðu oft saman í síma og hittust með fjölskyldum sínum um hátíðir og á afmælum. Ferðuðust líka mikið saman, bæði innanlands og til útlanda. Eftir að afi dó fækkaði ferðalögunum sem ömmu þóttu svo skemmtileg. Hún var því þakklát fyrir að fá tækifæri til að fara með okkur mömmu og sonum sínum í eftirminnilega ferð þegar hún varð áttræð. Við þessi kaflaskil er svo ótalmargt sem kemur upp í hugann. Litla langamman sem átti alltaf til kanilsnúð fyrir litla kroppa. Amman sem var alltaf svo ljúf og góð og kallaði mig lambið sitt þótt ég væri orðin fullorðin. Uppáhaldspersónan mín, besta vinkona og minn helsti stuðningsmaður í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Takk fyrir allt elsku amma og góða ferð.

Daldís Ýr

Guðmundsdóttir.