Karolína Smith fæddist á Laugavegi í Reykjavík 19. september 1936. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 20. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Óskar Smith pípulagningameistari í Reykjavík og kona hans Eggertína Magnúsdóttir Smith. Bræður Karolínu eru Magnús og Óskar, systir hennar er Theodóra.

Karolína eignaðist soninn Eggert Garðar Hilmarsson, f. 3. apríl 1961, hann lést 23. ágúst 1971.

Karolína giftist Óla Kristinssyni vélfræðingi 1973 og eignuðust þau tvo syni, Óla Kára, f. 1974, og Eggert Pál, f. 1975.

Karolína útskrifaðist með grunnskólapróf úr Austurbæjarskóla 1953 og gekk í húsmæðraskóla í Vordingborg þar sem hún eignaðist vinkonur fyrir lífstíð. Síðar vann hún hjá Nóa-Siríusi við bókhald og skrifstofustörf og frá 1983 rak hún þjónustu- og innflutningsfyrirtækið Kemhydro ásamt eiginmanni sínum til 1997 og svo ásamt syni sínum til 2006.

Útför Karolínu fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 1. desember 2022, og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég lenti eitt sinn í deilu við kennara minn á mínum yngri árum. Kennarinn vildi halda því fram að enginn væri algóður en ég gaf mig ekki á því að móðir mín væri algóð. Sú skoðun mín breyttist aldrei og styrktist eftir því sem ég kynntist henni betur sem fullorðinn maður. Ég vissi alltaf að ég nyti mikilla forréttinda að vera sonur foreldra minna. Faðir minn, Óli Kristinsson, elskaði móður mína mikið og ekki var hægt að hugsa sér betri pabba en hann, hann var líka algóður. Þegar hann lést, langt fyrir aldur fram, kynntist ég móður minni á nýjan hátt. Nú vorum við viðskiptafélagar og rákum fyrirtækið sem þau stofnuðu saman. Hún var séð viðskiptakona og vafði um fingur sér öllum helstu viðmælendum. Þegar ég ólst upp fékk ég að taka þátt í öllu með foreldrum mínum, við fórum saman út að borða, við ferðuðumst saman til útlanda og vorum mjög samheldin. Þá tóku þau öllum vinum mínum vel og hafa margir haft orð á því að foreldrar mínir hafi nánast verið aukaforeldrar þeirra. Móðir mín hafði kynnst sorginni þegar fyrsta barn hennar lést aðeins 7 ára að aldri eftir erfiða baráttu við slímseigjusjúkdóm, en hafði fundið gleðina aftur þegar hún kynntist föður mínum. Ég trúi því að þessi missir hennar hafi gert það að verkum að gleðin og ástin hafi verið henni þeim mun mikilvægari og kærari þegar þær tilfinningar vöknuðu á ný. Ég ræddi þessi mál við hana eftir að faðir minn dó, en ég var nánast óhuggandi mjög lengi á eftir. Þá gaf hún mér það ráð sem ég leita í enn í dag: „Maður getur ekki verið sorgmæddur alltaf“. Hamingjan getur vissulega verið brothætt, en það er undir manni sjálfum komið að setja hana saman þegar hún brotnar. Mamma mín stóð alltaf með mér og ég gat ávallt treyst henni, án undantekninga, og leitað til hennar með allt. Að hafa átt svona manneskju að var mikil blessun. Ég finn að kærleikur hennar til mín mun lifa áfram með mér og er nokkuð sem ég endurgeld nú margfalt til minna eigin barna. Eitt því síðasta sem móðir mín bað mig um er að láta barnabörnin ekki gleyma henni eða Óla afa þeirra. Ég þurfti að lofa því að á öllum afmælum og jólum yrði sagðar sögur af þeim og pakkar frá þeim. Það verður ljúft og skylt að gera. Það er huggun harmi gegn að hugsa til þess að nú séu foreldrar mínir sameinaðir á ný í sumarlandinu og að móðir mín geti nú faðmað litla strákinn sinn á ný sem hún missti svo ungan.

Þar til við hittumst á ný, þinn sonur,

Eggert Páll.