Lilja Líndal Gísladóttir fæddist á Akranesi 4. apríl 1947. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða 15. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Gísli Teitur Kristinsson, f. 29.8. 1921, d. 1.3. 2005, og Petrea Kristín Líndal Karlsdóttir, f. 30.8. 1925, d. 20.1. 2015. Systur Lilju eru Emilía Líndal Gísladóttir, f. 4.8. 1944, og Kristrún Líndal Gísladóttir, f. 12.12. 1945.

Lilja kynntist Henry Mörköre og eignaðist með honum son: 1) Gísla Baldur, árið 1965. Börn hans eru Nína Björk, Axel Máni og Guttormur Jón. Gísli Baldur á þrjú barnabörn.

Lilja giftist A) 1968 Jóni Edvard Reimarssyni, f. 14.1. 1942, d. 22.3. 1980. Börn Lilju og Jóns Edvards eru: 2) Jóhanna Líndal, f. 1968, d. 2017, eftirlifandi maður hennar er Ari Grétar, dóttir þeirra er Lilja Petrea. 3) Kristinn Líndal, f. 1973, kona hans er Fanney, synir þeirra eru Edward, Ólíver og Aron.

Lilja giftist B) 1981 Hirti Márusi Sveinssyni, f. 6.9. 1956. Synir þeirra eru: 4) Márus Líndal, f. 1982, kona hans er Þura Björk, börn þeirra eru Hrafn, Hreinn Darri og Linda María. 5) Ólafur Elí Líndal, f. 1983, sambýliskona hans er Berglind Björk, dætur þeirra eru Sóley María og Heiðrún Sif.

Lilja ólst upp á Akranesi og bjó þar nær alla sína tíð. Hún starfaði mest við verslunarstörf og rak meðal annars vefnaðarvöruverslunina Nýju línuna á Akranesi ásamt mágkonu sinni.

Útför hennar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 1. desember 2022, klukkan 13.

Mig langar til að minnast vinkonu minnar Lilju Líndal Gísladóttur í fáeinum orðum.

Fyrir um það bil fjörutíu og sjö árum var ég á gangi á Suðurgötunni með lítinn dreng í kerru. Lilja stóð á tröppunum á Geirmundarbæ, hún vinkaði til mín og bauð mér inn í kaffi.

Það var sá besti kaffisopi sem ég hef fengið því þarna hófst vinátta sem hélst æ síðan.

Og þeir urðu margir kaffisoparnir í gegnum tíðina. Fyrst í gamla húsinu og svo nýja Geirmundarbæ. Alltaf var gaman hjá okkur og mikið hlegið.

Við störfuðum saman um tíma í Junior Chamber. Hún bauð mér síðan að ganga til liðs við Lionsklúbbinn Eðnu sem hún var einn af stofnendum að.

Lilja var sannkölluð hvunndagshetja. Hún fór ekki varhluta af sorg og erfiðleikum um ævina. Mér fannst ekki alltaf að almættið væri sanngjarnt í garð Lilju vinkonu minnar. En alltaf stóð hún keik. Ég dáðist að kjarki hennar og baráttuvilja.

En það var líka gleði. Börn og barnabörn. Og veislur til að gleðjast. Skemmtileg ferðalög með Hirti bæði innanlands og utan.

Við Jón fengum að fylgja henni og Hirti í nokkur skipti. Þar á meðal til Flórída sem var í miklu uppáhaldi hjá Lilju. Og þar var með í för drengurinn sem var í kerrunni þegar hún bauð mér fyrst í kaffi. Mörgum árum og kaffibollum seinna. Lilja rak verslun með Svönu mágkonu sinni um árabil, með efni og garn. Þá tókum við okkur til og fórum að sauma eins og enginn væri morgundagurinn. Einhverju sinni lentum við í basli með saumaskapinn og gátum engan veginn fundið út úr þessu. Þá var nú gott að eiga Dúnu systur að til að leysa úr flækjunni. En mikið hlógum við að vitleysunni. Ermin og fóðrið sneri vitlaust.

Allt tekur enda og þeir verða ekki fleiri kaffibollarnir á Goddastöðum.

Ég kveð Lilju vinkonu mína með söknuði og með þökk fyrir samfylgdina í gegnum tíðina. Hún er farin í eitt ferðalagið enn, nú yfir í sumarlandið. Vonandi verður hún búin að hella upp á þegar ég kem. Vinkar mér og segir: „Komdu í kaffi!“

Anna Jóna.

Í dag kveðjum við kæran félaga okkar í Lionsklúbbnum Eðnu, Lilju Líndal Gísladóttur.

Lilja var ein af stofnendum Lionsklúbbsins Eðnu fyrir 25 árum eða 20. maí 1997.

Hún var kosin hvunndagshetja klúbbsins. Og þann titil átti hún svo sannarlega skilið.

Alltaf var hún boðin og búin að vinna að málefnum Eðnunnar og taka að sér hin og þessi störf sem féllu til í starfsemi klúbbsins.

Við Eðnukonur minnumst Lilju með þakklæti fyrir hennar frábæru störf í þágu Lions á liðnum árum.

Við kveðjum hana með söknuði og þökkum samfylgdina á liðnum árum.

Vottum eiginmanni, börnum og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Blessuð sé minning Lilju.

Fyrir hönd félaga í Lionsklúbbnum Eðnu,

Elín.