Jón Guðmundsson fæddist á Ósi á Skógarströnd 1. júní 1937. Hann lést í Stykkishólmi 20. nóvember 2022, á heimili sínu Silfurgötu 34.

Foreldrar Jóns voru Guðmundur Daðason bóndi og kona hans Sigurlaug María Jónsdóttir húsmóðir. Systkini Jóns voru Þórir, f. 1934, d. 2007, María, f. 1936, Ásdís, f. 1940, og Auður, f. 1946.

Jón kvæntist 9. janúar 1969 Kolbrúnu Gunnarsdóttur, f. 6.8. 1946, húsmóður.

Börn Jóns og Kolbrúnar eru: 1) Ágúst, kona hans er Jóhanna Kristín Bertelsen og eiga þau þrjú börn. 2) Þór, kona hans er Vala Karen Guðmundsdóttir og eiga þau tvö börn. 3) Ármann, kona hans er Alda Magnúsdóttir og eiga þau tvö börn. 4) Hrafnhildur, maður hennar er Haukur Randversson og eiga þau tvö börn. 5) María, hún á tvö börn frá fyrra sambandi.

Jón bjó á Ósi á Skógarströnd til ca 25 ára aldurs eða þar til hann og Kolbrún hófu sambúð. Jón og Kolbrún hófu búskap í Reykjavík á Flókagötunni þar sem Jón vann við uppbyggingu á fyrstu blokkunum í Bökkunum í Breiðholti. Malbikið átti þó ekki við sveitamanninn og eftir aðeins eitt ár í borginni var ákveðið að snúa aftur á heimaslóðir en nú í Stykkishólmsbæ. Unga parið leigði sér fyrst hús við Silfurgötuna en keypti sér síðar lítið parhús við Skólastíg. Árið 1972, þegar von var á þriðja barni þeirra hjóna, var ákveðið að stækka við sig og fengu þau úthlutaða lóð við Silfurgötu 34 þar sem þau byggðu sér hús og fluttu inn í apríl 1974, þá komin með fjögur börn. Þetta átti eftir að verða framtíðarheimili þeirra hjóna.

Í Hólminum lagði Jón stund á sjómennsku.

Jón eignaðist seinna sjálfur trillu og fór að stunda grásleppuveiðar og handfæraveiðar.

Jón hafði gaman af öllum íþróttum og hefði sjálfsagt lagt kapp á slíkt sjálfur ef það hefði verið í boði á hans yngri árum. Hann ólst upp við spilamennsku og skák á Ósi og sú gleði sem það gaf honum fylgdi honum út í lífið. Hann spilaði lengi brids með félögum sínum og naut þess að setjast yfir góða skák. Útförin fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 1. desember 2022, klukkan 14.

Elsku tengdapabbi. Hvað á ég eiginlega að skrifa um? Um stundirnar sem við áttum saman á sjónum. Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum saman á grásleppunni, þú kenndir mér að sigla um skerin í kringum Stykkishólm, ekki það að ég er nú búinn að skrapa botninn nokkrum sinnum þar í kring og reyndar skröpuðum við hann saman einu sinni, ég var saklaus af því en við komumst alltaf heilir heim og ég gleymi ekki þegar við lentum í þokunni og sigldum heim eins og enginn væri morgundagurinn, og það merkilega var að við hittum beint inn í höfnina þó svo að skyggnið væri nánast ekkert.

Um stundirnar sem við áttum saman í sveitinni í kringum kindurnar og heyskapinn. Ég byrjaði á að hjálpa þér í heyskapnum þegar þú varst með kindurnar þínar á Ósi, þá heyjuðum við í bagga og svo keyrðum við þetta allt inn að Ósi í kerru en svo færðir þú þig að Hofsstöðum og tókst við kindunum hans tengdapabba þíns og þar höfum við hjálpast að í yfir 20 ár í heyskap. Fyrst við tveir, tengdamamma og Hrafnhildur, svo kom Arnar inn í þetta með okkur strax og hann fór að geta gengið og sama var með Vigni, hann gerði það sem hann gat gert en hreyfihömlunin setti strik í það hjá honum. Hann lagði samt á sig að eyða heilu dögunum í traktornum og það gladdi hann alveg helling að geta hjálpað afa að heyja fyrir kindurnar. Það verður öðruvísi að vera í sveitinni núna þegar þú ert farinn frá okkur en ég er viss um að þú ert kominn með kindur þarna hinum megin því áhugi þinn fyrir búskap var það mikill.

Um ferðalögin okkar sem við fjölskyldan fórum í með ykkur tengdamömmu hér innanlands. Ég held að það séu ekki orðnir margir staðir sem við áttum eftir að fara á, kannski þá bara hálendið, en við fórum saman síðast í fyrra. Þetta Covid setti auðvitað strik í ferðalögin hjá okkur eins og öðrum og það var í fyrsta skipti í sumar sem við fórum ekki saman en Hrafnhildur náði að fara með ykkur rúnt út á nes, sem verður henni mikil minning í framtíðinni.

Vil ég þakka þér fyrir allar þessar stundir sem við erum búin að eiga með ykkur í yfir 30 ár, fyrir öll jólin sem við höfum átt saman og fyrir alla hjálpina í netavinnunni sem þú ert búinn að gera fyrir mig í gegnum árin. Þú passaðir upp á að við ættum alltaf til nóg af netum og varst langt kominn með að græja öll netin fyrir næstu vertíð hjá okkur en hafðu ekki áhyggjur af mér, ég klára þetta vonandi fyrir vorið eða kannski bara næsta ár. Eina vesenið hjá mér er að árið er of stutt því allt sem ég ætla að gera á hverju ári er bara vesen út af því hversu fáir dagar eru í árinu og þú varst búinn að sjá að 24 tímar væru bara ekki nógu langur sólarhringur hjá mér!

Hafðu þökk fyrir allar stundirnar sem við fjölskyldan áttum saman.

Elsku tengdamamma, Ágúst, Þór, Ármann, María og fjölskyldur, ég votta ykkur samúð mína, við komum til með að muna góðan mann um ókomin ár.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Haukur

Randversson.