Kammersveit Reykjavíkur heldur sína árlegu jólatónleika í Norðurljósum í Hörpu á morgun, sunnudag, kl. 16. Þema tónleikanna er barokk í norðri og á efnisskrá verða verk sem öll tengjast norðurhluta Evrópu og eru eftir tónskáld sem áttu ættir að rekja til eða störfuðu í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, að því er segir í tilkynningu.
Einnig verða frumfluttar nýjar útsetningar á íslenskum þjóðlögum og jólalögum eftir sellóleikara sveitarinnar, Hrafnkel Orra Egilsson. Einleikari er Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari.
Tónleikarnir verða hljóðritaðir af RÚV og eru framlag Rásar 1 til Jólatónleikadags Sambands evrópskra útvarpsstöðva 18. desember og verður útvarpað í yfir 15 löndum, þeirra á meðal Bretlandi, Danmörku, Finnlandi og Ástralíu.
Þá eru tónleikarnir hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar og fer miðasala fram á vef Hörpu, harpa.is.