Álfsnes Starfsleyfi skotvallar Skotfélags Reykjavikur til umsagnar.
Álfsnes Starfsleyfi skotvallar Skotfélags Reykjavikur til umsagnar. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Starfsleyfi fyrir skotíþróttavöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi er komið í auglýsingu. Lagt er til að það gildi til 31. október 2026. Jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa barst 19. október og jákvæð umsögn byggingarfulltrúa 24

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Starfsleyfi fyrir skotíþróttavöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi er komið í auglýsingu. Lagt er til að það gildi til 31. október 2026. Jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa barst 19. október og jákvæð umsögn byggingarfulltrúa 24. nóvember síðastliðinn. Umsagnarfrestur er til 28. desember 2022.

„Ég reikna með að starfsleyfið verði gefið út í janúar,“ segir Guðmundur Kr. Gíslason, talsmaður Skotfélags Reykjavíkur sem er elsta íþróttafélag landsins. Hann segir að starfsemi á vellinum verði bundin ýmsum skilyrðum. Almennt verður bannað að skjóta þar á sunnudögum og föstudögum. „Þá vill Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafa stjórn á því hversu mörg mót eru haldin hjá þessu íþróttafélagi, við megum halda fjögur mót á ári samkvæmt tillögunum. Við þurfum að tilkynna mótin sem haldin eru utan almenns þjónustutíma með tveggja vikna fyrirvara.“ Guðmundur segir að stóru skeet-mótin séu yfirleitt haldin frá föstudegi til sunnudags.

Í starfsleyfisskilyrðunum skotvallarins í Álfsnesi kemur m.a. fram að notkun blýhagla sé óheimil. Hún hefur verið bönnuð þar frá 2021. Þá á að nota blýlaus riffilskot þegar því verður við komið. Eins er bannað að nota leirdúfur með tjörubindiefni. Nota á hljóðdeyfa í riffilskotfimi þegar því verður við komið. Rekstraraðili á að skila raunhæfum tillögum að úrbótum til að minnka hávaða frá starfseminni.

Guðmundur bendir á að skeet-vellirnir séu settir upp samkvæmt stífustu reglum Ólympíuhreyfingarinnar og verði því að snúa eins og þeir gera nú. Hins vegar megi hækka hljóðvarnarmanir meira.

Takmarka á þjónustutíma til að draga úr áhrifum af völdum hávaða. Skotæfingar verða leyfðar mánudaga og fimmtudaga frá kl. 10-21, þriðjudaga og miðvikudaga frá kl. 10-19 og á laugardögum frá kl. 10-16. Leyft verður að halda skotkeppnir allt að fjórum sinnum á ári með rýmri tíma. Það er frá 10-19 á föstudögum, laugardögum og/eða sunnudögum. Mót má ekki ná yfir fleiri en tvo daga samfellt. Aðeins má halda slíkt mót einu sinni í mánuði.

Hægt verður að sækja um rýmri skottíma fyrir riffla úr riffilhúsi með hljóðdeyfum að undangenginni hljóðmælingu, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerir eða hefur eftirlit með. Hljóðstig við íbúðarhús á að mælast lægra en 45 dB. Lengsti mögulegi afgreiðslutími sem hægt er að sækja um fyrir riffla með hljóðdeyfi er frá 19-22 mánudaga til fimmtudaga og á laugardögum frá 16-22.

Höf.: Guðni Einarsson