„Á þriggja ára tímabili náum við 15 milljarða hagræðingu í rekstri borgarinnar. Eru þetta mestu hagræðingaraðgerðir í sögu borgarinnar frá hruni og löngu tímabær tiltekt inni í kerfinu,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Kristján Jónsson

Höskuldur Daði Magnússon

„Á þriggja ára tímabili náum við 15 milljarða hagræðingu í rekstri borgarinnar. Eru þetta mestu hagræðingaraðgerðir í sögu borgarinnar frá hruni og löngu tímabær tiltekt inni í kerfinu,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Borgarráð samþykkti á fimmtudag að vísa til borgarstjórnar 92 tillögum meirihlutans um hagræðingu í rekstri borgarinnar á næsta ári. Tillögurnar eiga að mæta hallarekstri og skila yfir milljarði króna. Skorið verður niður í menningarstarfi, þjónustu sundlauga og félagsstarfi ungmenna svo dæmi séu tekin. „Við erum að horfast í augu við vandann. Hallinn af rekstri A-hlutans er einfaldlega allt of mikill. Hann skýrist af mörgum utanaðkomandi þáttum eins og öll sveitarfélög og ríkið finna fyrir núna, eins og heimsfaraldrinum og verðbólgu. Tímabært er að fara í verkefnabundna hagræðingu til að bæta undirliggjandi rekstur borgarinnar. Við beittum þeirri aðferðafræði að setja flata hagræðingarkröfu á öll svið, líka á skrifstofur borgarstjóra, borgarstjórnar og borgarritara. Allir sættu þessari sömu hagræðingarkröfu á laun. Rekstur er ekki verðbættur og í því felst mjög stíf hagræðingarkrafa upp á líklega 1,4 milljarða,“ segir Einar.

Fleira á teikniborðinu

Hann segir að auk þess sem sparað verður í þessari atrennu sé fleira á teikniborðinu. „Við erum að taka þennan milljarð og erum með umbótatillögur í þessum pakka sem þarf að rýna og útfæra en þær geta kannski skilað 300-400 milljónum til viðbótar. … Samanlagt eru þessar aðgerðir sem við erum að ráðast í fyrir árið 2023 ríflega 3,1 milljarður.“

Einar viðurkennir að fjárhagsstaðan komi niður á íbúum Reykjavíkur. „Það gefur augaleið að þegar hallinn er svona mikill, og hagræðingarkrafan svona stíf, þá mun það fela í sér þjónustuskerðingu í lífi borgaranna að einhverju leyti. Við erum að tryggja að það sé ekki í mikilvægustu grunnþjónustunni og lögbundnum skyldum sveitarfélagsins,“ segir hann. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri varð ekki við ítrekuðum beiðnum um viðtöl vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í rekstri borgarinnar.