Hrefna kann góð ráð fyrir fólk svo það geti haft aðeins meira á milli handanna.
Hrefna kann góð ráð fyrir fólk svo það geti haft aðeins meira á milli handanna. — Morgunblaðið/Ásdís
Við gefum þau ráð að fólk fari hreinlega á peningastefnumót. Þá gefur fólk sér tíma til að setjast niður og ræða fjármálin án þess að vera með ásakanir hvort á annað.

Ljóst er að heimilisbókhald margra er í lamasessi, enda erum við fæst sérfræðingar á sviði fjármála. Flest höfum við meira en nóg að gera með að sinna vinnu, heimilisstörfum og barnauppeldi og látum fjármálin mæta afgangi, enda er auðvelt að borga með kreditkorti og taka afleiðingunum síðar. En það kemur alltaf að skuldadögum og þá er stundum komið í óefni.

Hrefna Björk Sverrisdóttir kann mörg góð ráð til að halda utan um heimilisbókhaldið, grynnka á skuldum, minnka neyslu og í leiðinni spara heilmikið fé sem mætti þá nýta í áhugamál, ferðalög, nýjan bíl eða stærra húsnæði. Mögulega gætirðu fundið aukamilljón einhvers staðar!

Reyni að vera skynsöm

Út er komin bókin Viltu finna milljón? sem Hrefna skrifaði ásamt Grétari Halldórssyni.

„Hugmyndin var að gera einfalda bók á mannamáli sem fólk gæti tengt við. Bókin er uppfull af ráðum sem tengjast okkar daglega lífi varðandi að sýsla með peninga, sem við erum öll að gera margoft á dag. Við getum gert litlar breytingar en um leið sparað okkur mikinn pening,“ segir Hrefna, en hún er með háskólapróf í viðskiptafræði og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun.

„Ég hef stofnað nokkur fyrirtæki í gegnum tíðina og auk þess komið að útgáfu. Ég gaf út kvennatímaritið Orðlaus með vinkonum mínum þegar ég var yngri og stofnaði svo Monitor sem Morgunblaðið síðan keypti. Í dag er ég svo líka í veitingarekstri en ég á veitingastaðinn Rok sem hefur gengið vel, þó að síðustu tvö ár hafi verið áskorun.“

Hefurðu alltaf verið glúrin í peningamálum og heimilisbókhaldi?

„Mig langar auðvitað að segja að ég tileinki mér hvert einasta ráð sem gefið er í bókinni en það er ekki alveg svoleiðis,“ segir Hrefna og brosir.

„Ég hef samt sem áður alltaf hugsað mikið um fjármál og passað að ég eigi fyrir því sem ég hef keypt og verið með varasjóð. Ég reyni að vera skynsöm,“ segir Hrefna og segist hafa byrjað fyrir alvöru að hugsa um fjármálin þegar hún varð ólétt 24 ára gömul.

„Það gerðist eitthvað þegar ég sá að ég þyrfti að bera ábyrgð á annarri manneskju.“

Fyrst þarf að hafa yfirsýn

Nú höfum við Íslendingar svolítið verið „þetta reddast“-þjóðin sem setur hluti á raðgreiðslur. Erum við ekkert að breytast?

„Jú, ég held við séum að verða betri og það breyttist auðvitað margt eftir hrunið. En ég kann eina góða sögu. Móðir mín rak fataverslun hér á landi og svo opnaði hún sömu búð í Noregi. Þar komu konur inn og skoðuðu og sögðu kannski: „Æ, ég á ekki fyrir þessu núna og verð að bíða til mánaðamóta.“ Mamma benti þeim á að þær gætu bara sett þetta á raðgreiðslur. Þær misstu hökuna í gólfið og fannst það afleit hugmynd. Þannig að ég hugsa að við Íslendingar séum frekar hvatvís og kynnum okkur ekki hlutina nógu vel fyrir fram, eins og að huga að tilboðum eða útsölum og staldra aðeins við áður en við kaupum okkur hluti.“

Hvar á maður að byrja ef maður hyggst taka til í fjármálunum?

„Það sem ég mæli með í bókinni er að byrja á að ná yfirsýn og ég gef ákveðin tól til að fara í gegnum fjármálin. Svo þarf að setja upp plan og þar hentar ekki eitt fyrir alla. En það er til dæmis ein gömul og góð regla sem kallast 50-30-20-reglan. Hún gengur út á að skipta tekjunum í þrjá flokka: fimmtíu prósent eiga að fara í nauðsynjar, þrjátíu prósent í neyslu, skemmtun, föt, afþreyingu og aðra neyslu og svo eiga tuttugu prósent að fara í sparnað eða að greiða niður skuldir. Auðvitað eiga ekki allir fyrir sparnaði og neyðast til að eyða meira í nauðsynjar en þá getur það verið markmið að komast nær þessari skiptingu,“ segir Hrefna og segist einnig gefa góð ráð um hvernig hægt sé að afla sér meiri tekna, auk fjölda góðra ráða um matarinnkaup, þrif, samgöngur og barnauppeldi svo eitthvað sé nefnt.

Ólíkir peningapersónuleikar

Hrefna segir fólk hafa mjög ólíkan „peningapersónuleika“ og talar hún um það í einum kafla.

„Við erum ótrúlega ólík þegar kemur að peningum. Sumir eru sveimhuga og aðrir eru hræddir við peninga og geta ekki tekist á við fjármál. Aðrir eru safnarar en í bókinni eru átta peningapersónuleikar skilgreindir,“ segir hún og segir að þegar sambýlisfólk er ekki í sama flokki geti það skapað mikla togstreitu í sambandinu.

„Ef fólk nær að læra betur hvort inn á annað er það líklegra til að geta sett sér sameiginleg markmið og búið til umgjörð sem hentar báðum aðilum vel,“ segir hún og segir algengt að annar aðilinn taki að sér fjármálin sem sé ekki endilega gott því allir þurfi að taka ábyrgð á sínum eigin fjármálum.

„Við gefum þau ráð að fólk fari hreinlega á peningastefnumót. Þá gefur fólk sér tíma til að setjast niður og ræða fjármálin án þess að vera með ásakanir hvort á annað. Þá er líka hægt að ræða drauma hvort annars og hvernig hægt sé að vinna að markmiðum beggja.“

Sparnaður er langhlaup

Í bókinni má finna kafla um hvernig grynnka má á skuldum.

„Fólk þarf að horfa á þetta sem langhlaup og ekki er gott að setja sér óraunhæf markmið eins og að lækka skuldir um fimmtíu prósent á einu ári. Það er hægt að taka skorpur með því til dæmis og fá sér aukavinnu í nokkra mánuði til að saxa á skuldir en yfirhöfuð er þetta þolinmæðisvinna. Við fáum bara útborgað einu sinni í mánuði, en það eru ýmsar leiðir sem við fjöllum um í bókinni. Það er eins með niðurgreiðslu skulda og sparnað að það eru ekki alltaf sömu aðferðir sem henta okkur öllum. Þá skiptir máli að vera búinn að læra aðeins inn á sjálfan sig og peningahegðun manns,“ segir hún.

Viðtöl eru í bókinni við nokkra þjóðþekkta einstaklinga sem gefa góð ráð varðandi sparnað, hvert á sínu sviði. Þar má finna viðtöl við fasteignasala, matreiðslumann, ríkissáttasemjara, verslunareiganda og innanhússarkitekt svo eitthvað sé nefnt.

Hrefna segir bókina eiga að gefa fólki tækifæri til að hagræða þannig að eitthvað verði eftir til að njóta lífsins betur.

„Ég er ekki að segja fólki að hætta að lifa lífinu og hætta að eyða peningum heldur að skoða hvernig hægt sé að lifa góðu og farsælu lífi án þess að þurfa að neita sér um alla hluti. Þetta snýst um að tileinka sér meiri skynsemi í daglegu eyðslunni og hætta að gefa fyrirtækjum úti í bæ óþarflega mikið af laununum okkar heldur njóta þeirra frekar sjálf í eitthvað sem okkur langar í.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir