Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Hin nýja skrifstofubygging Alþingis, sem nú er að rísa við Tjarnargötu/Vonarstræti í Reykjavík, verður 155 fermetrum stærri en upphaflega var ákveðið. Húsið verður því alls 6.518 fermetrar að stærð. Upphafleg kostnaðaráætlun var 4,4 milljarðar króna en sú tala hefur eflaust hækkað talsvert.
Á heimasíðu Alþingis kemur fram að forsætisnefnd þingsins hafi ákveðið síðastliðið haust að bæta við verkið þremur fundarherbergjum á 5. hæð til austurs sem áður hafði verið ákveðið að fresta að gera þar til síðar.
Við endurskoðun á þeirri ákvörðun var talið hagkvæmara að þau yrðu steypt upp núna. Sótt var um leyfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur fyrir breytingunni og var það heimilað. Nú styttist í að allri uppsteypu hússins verði lokið.
Í tilkynningu á vef Alþingis kemur fram að forsætisnefndin fór nýlega í skoðunarferð um nýbygginguna ásamt verkefnisstjóra Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna og hönnuðum hússins, Studio Granda. Framkvæmdir eru í fullum gangi úti jafnt sem inni en taka á húsið í notkun á nýju löggjafarþingi næsta haust. ÞG verktakar vinna verkið.
Úti er unnið að landnámsgryfju fyrir framan húsið við Vonarstræti en hún sýnir hver landhæðin var við landnám, segir á vef Alþingis. Þá er unnið að uppsetningu undirkerfis steinklæðningar og einangrun utan á veggi.
Inni er verið að vinna á öllum hæðum. Þar er verið að setja upp innveggi, sparsla og mála, draga í raflagnir, setja upp loftræsisamstæðu í kjallara og vinna við pípulagnir.
Steintegundir verða á gólfum
Þá er unnið að því að leggja terrassogólf á nefndasali á 1. hæð. Í gólfi hvers og eins fundarsalar verður ein af þeim steintegundum sem munu prýða húsið að utan.
Þannig verður líparít í gólfi ráðstefnusalar, gabbró í gólfi útsendingarsalar og Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, blágrýti og hraungrýti í gólfum nefndasalanna fjögurra Vonarstrætismegin.