Yngvi Halldórsson
Yngvi Halldórsson
Yngvi Halldórsson forstjóri Sýnar segir efnahagsumhverfið – og efnahagshorfur – hafa haft „heilmikil áhrif“ á þá ákvörðun stjórnenda félagsins að segja upp starfsfólki um mánaðamótin

Yngvi Halldórsson forstjóri Sýnar segir efnahagsumhverfið – og efnahagshorfur – hafa haft „heilmikil áhrif“ á þá ákvörðun stjórnenda félagsins að segja upp starfsfólki um mánaðamótin.

„Verðbólga, veiking krónunnar og óvissa með niðurstöður kjarasamninga – allt þetta hefur áhrif á þessa ákvörðunartöku,“ segir Yngvi.

Fram kom í tilkynningu frá Sýn til Kauphallar að kostnaður vegna starfsloka yrði gjaldfærður að fullu á fjórða ársfjórðungi 2022 og næmi um 150 milljónum króna.

Spurður á hvaða sviðum þetta fólk starfaði, sundurliðað eftir deildum, segir Yngvi uppsagnirnar hafa verið „þvert á öll stærri svið félagsins“.

Á að skila 650 milljónum

Þá kom fram í tilkynningunni að áætlað væri að breytingar á skipulagi, ásamt öðrum rekstraraðgerðum, myndu skila sér í bættri afkomu Sýnar sem næmi um 650 milljónum á ári. Jákvæðra áhrifa myndi fyrst gæta í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023.

Spurður hvort þessi sparnaður yrði eingöngu vegna uppsagna, eða hvort fleira kæmi til segir Yngvi að stærsti kostnaðarliðurinn sem sparast séu laun en einnig yrði sparað í rekstrartengdum verkefnum.

Ný stjórn Sýnar tók við eftir stjórnarkjör í október.

Spurður hvort um sé að ræða stefnubreytingu af hálfu nýrrar stjórnar segir Yngvi framkvæmdastjórn félagsins hafa tekið þessa ákvörðun með stuðningi stjórnar.

Skipta á starfseminni í tvær kjarnaeiningar – annars vegar Vodafone og fjarskipti og hins vegar fjölmiðla.

Spurður hvaða rök séu fyrir þessari uppskiptingu segir Yngvi að fjarskipti og fjölmiðlun séu tvær helstu tekjustoðir félagsins. Ætlunin sé að skerpa enn frekar á þessari áherslu.

„Breytingin felst meðal annars í því að með ráðningu sérstaks framkvæmdastjóra Vodafone-
Fjarskipta fær þessi stóra tekjueining skýra rödd í framkvæmdastjórn félagsins.“

Sala til Ljósleiðarans

Með breytingunum verða til fjögur stoðsvið. Meðal annars stoðsvið með innviði sem Sigurbjörn Eiríksson leiðir.

Spurður hvort Sigurbjörn muni leiða sölu innviða á næstu misserum segir Yngvi að Sigurbjörn leiði nú viðræður á burðarnetinu til Ljósleiðarans. Engin frekari áform séu á þessu stigi um frekari sölu innviða.

Þá mun Endor taka yfir kerfisþjónustu Sýnar. Spurður hvort til standi að útvíkka þá þjónustu með fleiri viðskiptavinum, til dæmis í skýja- og rekstrarlausnum, segir Yngvi breytingarnar munu styrkja Endor. Með nýjum starfsmönnum verði alls 24 starfsmenn hjá Endor.

Spurður hvort til greina komi að kynna ný vörumerki á sviði fjarskipta segir Yngvi engin áform um slíkt á þessu stigi. Staða framkvæmdastjóra fjarskiptahlutans verði auglýst á næstu dögum. baldura@mbl.is