Í símanum Gagnamagn á farsímanetinu jókst í ár um 23% á milli ára.
Í símanum Gagnamagn á farsímanetinu jókst í ár um 23% á milli ára. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Farsímaáskriftum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og var fjöldi þeirra meðal landsmanna kominn yfir hálfa milljón um mitt þetta ár eða rúmlega 510 þúsund áskriftir, sem er 4,9% fjölgun frá árinu á undan að því er fram kemur í nýútkominni tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um íslenska fjarskiptamarkaðinn.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Farsímaáskriftum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og var fjöldi þeirra meðal landsmanna kominn yfir hálfa milljón um mitt þetta ár eða rúmlega 510 þúsund áskriftir, sem er 4,9% fjölgun frá árinu á undan að því er fram kemur í nýútkominni tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um íslenska fjarskiptamarkaðinn.

Þótt farsímaáskriftum fjölgi virðast landsmenn þó tala minna í farsíma en á seinustu árum. Á móti kemur að gagnamagn um farsímanetið heldur áfram að aukast. Mínútum úr farsímum hefur fækkað úr 552 milljónum á fyrri hluta ársins 2021 niður í 547 milljónir mínútna á fyrri hluta yfirstandandi árs, sem er 0,9% fækkun á milli ára. Hafa ber í huga að á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins, 2020, fjölgaði mínútum í farsímum stórlega og fram kemur í umfjöllun Fjarskiptastofu að fjarvinna á tímum faraldursins sé líkleg skýring á þeirri fækkun sem nú hefur orðið á símtölum í farsímum frá því sem var á árunum 2020 og 2021. Því til viðbótar má þó einnig telja líklegt að aukin samskipti og samtöl á milli fólks í gegnum spjallforrit eigi hér líka einhvern hlut að máli.

„Tæki tala við tæki“

Athygli vekur að fjöldi svonefndra M2M-korta á farsímanetinu hefur margfaldast á skömmum tíma. Um er að ræða farsímakort þar sem búnaður eða tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki á fjarskiptamarkaði (tæki-í-tæki eða TÍT). Eru tengd tæki sem senda á milli sín upplýsingar eða „tala saman“ yfir netið augljóslega í miklum vexti um þessar mundir. Í skýrslu Fjarskiptastofnunar kemur fram að M2M-kortum á farsímanetinu hefur fjölgað mikið milli ára eða úr 58 þúsund á árinu 2020 í 300 þúsund í lok seinasta árs og voru kortin svo orðin 775 þúsund talsins um mitt þetta ár.

Virk 5G-símakort á farsímanetinu voru rúmlega 31 þúsund um mitt þetta ár og hafði þá fjölgað um 6,1% á árinu. En talsíminn gamli lætur enn undan síga. „Þróun fyrri ára innan talsíma heldur áfram þar sem bæði notendum og mínútum fækkar milli ára og er fækkun viðskiptavina og mínútna aðallega hjá heimilum en ekki fyrirtækjum. Áskrifendum að heimasíma fækkar um 2,8% milli ára og mínútum fækkar um 10,8%. Síminn og Vodafone eru stærstu fyrirtækin á markaði fyrir heimasíma með tæpa 88% hlutdeild um mitt ár 2022,“ segir í umfjöllun Fjarskiptastofu um þróunina á markaðinum.

Gagnamagnið á farsímanetinu færist sífellt meira í aukana og jókst það á milli ára um 23% en aukningin var um 25% milli áranna 2020 og 2021. Bent er á að í farsímanetum er notað hlutfallslega meira gagnamagn í símum en í öðrum tækjum sem eru eingöngu fyrir gagnanotkun, t.d. spjaldtölvum eða 4G-netbúnaði.

Veltan á fjarskiptamarkaðinum jókst á fyrri hluta ársins. Fram kemur að tekjur af heimasíma og aðrar tekjur fóru lækkandi. Tekjur af farsímarekstri, gagnaflutningi og netþjónustu, sjónvarpsþjónustu o.fl. hafa aukist. Markaðshlutdeild stóru fjarskiptafyrirtækjanna í farsímaáskriftum tók ekki miklum breytingum á fyrri hluta yfirstandandi árs. Hlutdeild Símans var 36,6%, Nova 33,6% og Vodafone 25,3%.