Opinberar stofnanir sem hafa eftirlit með atvinnustarfsemi eða veita leyfi til hennar hafa gjarnan þann sið að taka sér þann tíma sem þeim hentar til afgreiðslu mála, jafnvel alveg óháð lögbundnum frestum. Þessar sömu stofnanir gefa fyrirtækjum svo iðulega mjög stuttan frest til svara, sem getur einnig komið sér mjög illa fyrir atvinnulífið.

Opinberar stofnanir sem hafa eftirlit með atvinnustarfsemi eða veita leyfi til hennar hafa gjarnan þann sið að taka sér þann tíma sem þeim hentar til afgreiðslu mála, jafnvel alveg óháð lögbundnum frestum. Þessar sömu stofnanir gefa fyrirtækjum svo iðulega mjög stuttan frest til svara, sem getur einnig komið sér mjög illa fyrir atvinnulífið.

Eitt dæmi um seinagang er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjanaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Umsóknin var lögð inn í júní í fyrra og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjanaleyfi innan tveggja mánaða frá því að öll gögn hafa borist.

Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum og það var gert í þessu tilviki. Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar.

Orkumálastjóri virðist telja þann tíma sem þetta hefur tekið réttlætanlegan og talar um að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn. Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér að opinberar stofnanir geti tafið mál eins og þeim hentar. Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi og hluti af því er að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tíma­ramma.