„Og svo verðum við að hafa hemil á sundurlyndisfjandanum sem oft hefur leikið okkur grátt.“

Staðan í íslenskum efnahagsmálum er að mörgu leyti góð, sérstaklega ef horft er til þess, sem er að gerast í kringum okkur. Helsti vandinn þessa dagana er verðbólgan. Hér fylgir verðbólgan reyndar þenslu, en í Evrópu fara saman verðbólga og samdráttur, sem er eitruð blanda.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var gestur á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins og mbl.is, á fimmtudagsmorgun og fór þar yfir stöðuna í efnahagsmálum. Bjarni rakti að þetta ár væri mun öflugra en stjórnvöld hefðu séð fyrir. Tekjur væru meiri og það ætti einnig við um hagvöxtinn, sem væri langt umfram það sem gert hefði verið ráð fyrir.

Bjarni gekk svo langt að segja að slátturinn í hagkerfinu væri sambærilegur og árið 2007 og allar vélar á yfirsnúningi. Ýmislegt væri til marks um það. „30% fleiri stjórnendur telja að skortur sé á starfsfólki en að meðaltali, sem segir að það vantar fólk í vinnu,“ sagði hann.

Atvinnuleysi er lítið á Íslandi um þessar mundir. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi á Íslandi 2,8% í október. Slíkar tölur vekja öfund allt í kringum okkur. Til samanburðar birti hagstofa Evrópu, Eurostat, á fimmtudag að atvinnuleysi á evrusvæðinu hefði verið 6,5% í október og væri það sögulegt því atvinnuleysi hefði aldrei mælst minna frá upphafi 1998. Það er rúmlega tvöfalt meira atvinnuleysi en hér á landi. Sérstakt áhyggjuefni á evrusvæðinu er að atvinnuleysi þar er 15% meðal ungs fólks. Þá er rétt að benda á þegar atvinnuleysi hér og á evrusvæðinu er borið saman að hér á landi er miklu hærra hlutfall íbúanna á vinnumarkaði. Athyglisvert er að landið með minnsta atvinnuleysið í Evrópusambandinu er ekki á evrusvæðinu. Það er Tékkland með 2,1% atvinnuleysi.

Verðbólgan er nú svipuð á Íslandi og á evrusvæðinu. Hér mældist hún 9,3% í nóvember og 7,1% án húsnæðisverðs, en á evrusvæðinu er hún 10% og á hækkandi orkuverð þar stóran hlut að máli.

Íslenskt efnahagslíf er ekki einangrað. Það sem gerist í kringum okkur hefur óhjákvæmilega áhrif. Það mætti því ætla að staðan í Evrópu gæfi ástæðu til að hafa áhyggjur af framtíðinni í ferðaþjónustu. Styrking dollarans veldur því hins vegar að það er sennilega ástæðulaust. Á því hafði fjármálaráðherra orð á morgunfundinum: „Kaupmáttur bandarískra ferðamanna er mjög sterkur og þeir eru að byrja að koma í meira mæli en við höfum séð í spálíkönum. Ferðaþjónustan gekk frábærlega frá vorinu og fólk er aðeins byrjað að ganga á sparnað sem safnast hefur upp.“

Þetta rímar við spá, sem Isavia kynnti á fimmtudag, um að á næsta ári myndi sætaframboð enn vaxa í farþegaflugi og áfangastöðum fjölga. Sætaframboð hefur hins vegar verið að dragast saman í Helsinki, Kaupmannahöfn og Ósló. Þá munu 23 flugfélög áfram fljúga til landsins.

Þótt sú staða, sem Bjarni lýsti á fundinum, beri því vitni að hér sé staðan allt önnur og betri en annarst staðar í Evrópu þýðir það ekki að hér sé allt í himnalagi. Undanfarin misseri hefur kaupmáttur aukist verulega hér á landi. Þótt verðbólgan hafi tekið við sér hefur sú styrking ekki horfið, en það þarf að halda vel á spöðunum eigi sá árangur ekki að fara í súginn.

Hækkun dollarans gagnvart krónunni veldur því að það verður ódýrara fyrir Bandaríkjamenn að koma hingað, en hún veldur því að hér verður margt dýrara en áður. Nú standa yfir mikilvægir kjarasamningar. Markmiðið með þeim hlýtur fyrst og fremst að vera að glata ekki ávinningnum af kjarabótunum, sem hafa náðst. Það er ekki síst hagur þeirra, sem eiga erfiðast með að ná endum saman og mega við minnstu áföllunum. Þessi staðreynd týnist hins vegar iðulega í óbilgjarnri umræðu, sem einkennist af hrópum, köllum og offorsi. Og taki þeir til sín sem eiga.

Í raun er Ísland í kjörstöðu. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rætt við Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra í tilefni af bók hans, Lifað með öldinni. Fáir hafa jafn djúpa og mikla yfirsýn yfir íslensk efnahagsmál og hann. Í lok viðtalsins er hann spurður hvort hann sé bjartsýnn fyrir hönd lands og þjóðar: „Ísland hefur góð tækifæri ef við nýtum okkar möguleika af skynsemi. Við þurfum að byggja á nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Og svo verðum við að hafa hemil á sundurlyndisfjandanum sem oft hefur leikið okkur grátt.“