Ljósmyndarinn Anna Maggý færir sjónrænar dagbókarfærslur.
Ljósmyndarinn Anna Maggý færir sjónrænar dagbókarfærslur.
Einkasýning ljósmyndarans Önnu Maggýar, Avoiding Death and Birth, verður opnuð í galleríinu Þulu í Hjartagarðinum við Laugaveg í dag, laugardag, kl. 14. Á sýningunni eru ný ljósmyndaverk sem Anna hefur verið að vinna að og „er fókusinn að þessu…

Einkasýning ljósmyndarans Önnu Maggýar, Avoiding Death and Birth, verður opnuð í galleríinu Þulu í Hjartagarðinum við Laugaveg í dag, laugardag, kl. 14. Á sýningunni eru ný ljósmyndaverk sem Anna hefur verið að vinna að og „er fókusinn að þessu sinni á abstrakt form sem við flæðum með í svarthvítri veröld“, að því er fram kemur í tilkynningu.

Anna Maggý (f. 1995) hefur á undanförnum árum vakið athygli fyrir verk sín, hvort sem um er að ræða portrett af tónlistarfólki eða persónulega myndsköpun. Hún notast aðallega við ljósmyndun en einnig aðra miðla á borð við innsetningar og myndbönd. Í tilkynningunni segir að lýsa megi verkum hennar sem „tilfinningalegu landslagi – skráargötum sjónræns töfraraunsæis sem áhorfandinn ber lykil að. Anna Maggý leitast við að flytja boð milli raunveruleika og drauma, umhverfis og ímyndunar, skoða mörk milli ytra yfirborðs og undirmeðvitundar.“

Þá segir Anna Maggý sjálf að um sé að ræða „dagbókarfærslur færðar í sjónrænt form“.

Sýningin stendur fram á Þorláksmessukvöld.