Rautt Vincent Aboubakar reif sig úr treyjunni eftir að hafa tryggt Kamerún óvæntan sigur á Brasilíu og var rekinn af velli.
Rautt Vincent Aboubakar reif sig úr treyjunni eftir að hafa tryggt Kamerún óvæntan sigur á Brasilíu og var rekinn af velli. — AFP/Issouf Sanogo
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enn halda ævintýrin áfram að gerast á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Suður-Kórea bættist í gær í hóp „litlu þjóðanna“ sem eru komnar í sextán liða úrslit keppninnar eftir hádramatískar lokamínútur í H-riðlinum

HM í Katar

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Enn halda ævintýrin áfram að gerast á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Suður-Kórea bættist í gær í hóp „litlu þjóðanna“ sem eru komnar í sextán liða úrslit keppninnar eftir hádramatískar lokamínútur í H-riðlinum.

Suður-Kórea, Japan, Marokkó, Ástralía og Senegal eru öll eftir í keppninni, í hópi þeirra sextán sem berjast um heimsmeistaratitilinn næstu fimmtán dagana, á meðan þjóðir á borð við Þjóðverja, Belga, Dani og Úrúgvæja eru allar farnar heim. Stóra spurningin er hvort eitthvert þessara fimm liða slær enn frekar í gegn með því að fara enn lengra í keppninni.

Úrúgvæjar, heimsmeistararnir frá 1930 og 1950, virtust á leið í sextán liða úrslit eftir að Giorgian de Arrascaeta skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik eftir sendingar Luis Suárez, þeirra einu mörk á mótinu, og þeir voru komnir í 2:0 gegn Gana. Fyrir fram var Gana með bestu stöðuna og hefði að óbreyttu komist áfram með jafntefli.

En Hwang Hee-chan, leikmaður enska liðsins Wolves, setti allt í háaloft þegar hann skoraði sigurmark Suður-Kóreu gegn Portúgal, 2:1, í uppbótartíma. Þegar flautað var af voru enn eftir um sex mínútur í hinum leiknum, Úrúgvæ þurfti að skora þriðja mark sitt, eða þá Gana að skora tvisvar. Hvorugt gerðist, Úrúgvæ vann bara 2:0 og gríðarlegur fögnuður braust út hjá leikmönnum og stuðningsfólki Suður-Kóreu, sem og í höfuðborginni Seúl, þótt klukkan þar væri orðin tvö að nóttu að staðartíma.

Komust áfram í þriðja sinn

Þetta er aðeins í þriðja sinn á ellefu lokamótum HM hjá Suður-­Kóreu sem liðið kemst áfram úr riðlakeppninni en það hafnaði í fjórða sæti á sínum heimavelli árið 2002.

Tapið breytti engu fyrir Portúgal sem vann H-riðilinn og mætir Sviss í sextán liða úrslitunum. Suður-Kór­eubúar eru hins vegar á leið í leik gegn sjálfum Brasilíumönnum á mánudagskvöldið.

Sviss sigraði í spennuleik

Svisslendingar kræktu í sextánda og síðasta sætið í útsláttarkeppninni í gærkvöld þar sem þeir lögðu Serba að velli í spennuþrungnum leik í lokaumferð G-riðilsins, 3:2.

Bæði lið komust yfir í fyrri hálfleiknum áður en Remo Freuler skoraði þriðja mark Svisslendinga í byrjun síðari hálfleiks eftir glæsilegt spil og það reyndist sigurmark þeirra þrátt fyrir mikla baráttu til leiksloka.

Þegar upp var staðið voru Svisslendingar aðeins einu marki frá því að skáka Brasilíumönnum og hirða af þeim efsta sæti G-riðilsins.

Skoraði og fékk rauða spjaldið

Vincent Aboubakar skoraði nefnilega sigurmark Kamerún í uppbótartíma, 1:0, gegn Brasilíu með fallegu skallamarki. Markið gaf Kamerún örlitla von þar til flautað var til leiksloka hjá Serbíu og Sviss. Aboubakar fagnaði markinu með því að rífa sig úr treyjunni og fékk þar með annað gula spjaldið sitt, og þar með það rauða.

Brasilíumenn töpuðu því lokaleik sínum í riðlinum og fengu á sig sitt fyrsta mark á HM. Tite þjálfari þeirra hvíldi nánast allt byrjunar­lið sitt frá fyrri leikjum og gerði níu breytingar á því fyrir leikinn í gær. Þeir voru þó sterkara liðið en Kamerúnar sýndu mikla seiglu og knúðu fram sigurinn sem þeir þurftu til þess að eiga einhverja möguleika.

Fyrstu leikirnir í dag

Sextán liða úrslit keppninnar hefjast í dag þegar Holland mætir Bandaríkjunum og Argentína leikur við Ástralíu, og þau eru síðan leikin áfram á sunnudag, mánudag og þriðjudag, eins og sjá má í úrslitadálkinum hér til hliðar.

Nú sést líka betur hvaða mögu­­leikar eru fyrir hendi á lokaspretti HM því sigurliðin í þeim tveimur leikjum sem fara fram í dag mætast í átta liða úrslitum og eitt þeirra fer því í undanúrslit.

Mótherji þar verður eitt af næstu fjórum liðum, Japan, Króatía, Brasilía eða Suður-Kórea. Undanúrslitaleikur á þessum væng gæti því hæglega orðið milli Argentínu og Brasilíu.

Japan og Kórea gætu mæst

En um leið er sá möguleiki líka fyrir hendi að grannþjóðirnar Japan og Suður-Kórea mætist í átta liða úrslitum keppninnar og önnur þeirra komist í undanúrslit!

England mætir Senegal og Frakkland mætir Póllandi. Sigurliðin mætast í átta liða úrslitum og eitt af þessum fjórum fer í undanúrslit. Þar verður andstæðingurinn Marokkó, Spánn, Portúgal eða Sviss. Þarna er því hægt að sjá fyrir sér undanúrslitaleik milli Frakklands og Spánar.

En það skemmtilegasta við heimsmeistaramótið er að þar fer aldrei allt eftir bókinni! Þetta hefur verið mót hinna óvæntu tíðinda og þau verða eflaust fleiri.