Alþingi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um söluna.
Alþingi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði um söluna. — Ljósmynd/Alþingi
„Mér fannst nú frekar lítið af nýjum upplýsingum koma fram,“ segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um fund stjórnskipunar- og eftir­lits­nefndar Alþingis í gær þar sem fulltrúar Bankasýslu ríkisins komu fyrir nefndina

„Mér fannst nú frekar lítið af nýjum upplýsingum koma fram,“ segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um fund stjórnskipunar- og eftir­lits­nefndar Alþingis í gær þar sem fulltrúar Bankasýslu ríkisins komu fyrir nefndina.

Var skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka þar til umræðu og segist Lilja Rannveig, sem sæti á í nefndinni, telja skýrsluna vel unna og segir það sérstaklega jákvætt hve hagfelld salan hafi verið fyrir ríkissjóð.

„Mér finnst bara stundum óheppilegt hvernig hlutirnir hafa verið orðaðir í fjölmiðlum og almennt finnst mér að margt mætti betur fara í gegnsæi og samskiptum, ég held að það sé aðalatriðið í þessu. Þó að upplýsingarnar hafi komið fram þá komu þær ekki fram með nægilega skýrum hætti þannig að hlutir fóru fram hjá fólki sem hefði átt að taka eftir þeim,“ segir Lilja enn fremur.

Þá segir hún skýrslu Fjármálaeftirlitsins enn eiga eftir að líta dagsins ljós, verði hún gerð opinber. „Ég held að það verði mun meira í henni en kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Margar af mínum spurningum snúast til dæmis um sölufulltrúana og við höfum lítið getað spurt um það því það er í rannsókn hjá Fjármálaeftirlitinu,“ segir þingmaðurinn að lokum.