Jóhannes Nordal man tímana tvenna.
Jóhannes Nordal man tímana tvenna. — Morgnublaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hóf að undirbúa ritun bókarinnar fyrir allmörgum árum og mér fannst heitið Lifað með öldinni lýsa vel hvers konar bók mig langaði að skrifa,“ segir Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, um endurminningar sínar sem komnar eru út hjá Vöku-Helgafelli

Ég hóf að undirbúa ritun bókarinnar fyrir allmörgum árum og mér fannst heitið Lifað með öldinni lýsa vel hvers konar bók mig langaði að skrifa,“ segir Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, um endurminningar sínar sem komnar eru út hjá Vöku-Helgafelli.

Fyrst og fremst vildi Jóhannes, sem orðinn er 98 ára, rekja þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem áttu sér stað á síðustu öld frekar en að fjalla um sitt eigið líf eins og gjarnan er gert í hefðbundnum sjálfsævisögum. „Bókin hefst um aldamótin 1900 og því er ég að fjalla um tuttugustu öldina sem heild þó ég hafi ekki lifað nema þrjá fjórðu hluta hennar. Þær breytingar sem urðu í byrjun aldarinnar lögðu grunninn að því skipulagi í stjórnmálum og efnahagsmálum sem átti eftir að setja mark sitt á öldina og því var mikilvægt að gera grein fyrir þeim. Segja má að ég hafi einnig upplifað þessar breytingar að einhverju leyti í gegnum frásagnir foreldra minna og fjölbreyttan vinahóp þeirra.“

Jóhannes ólst upp á miklu menningarheimili, móðir hans, Ólöf Jónsdóttir Nordal, var einn af fyrstu kvenstúdentum landsins og faðirinn, Sigurður Nordal, áhrifamesti bókmenntamaður þjóðarinnar. Á bókarkápu segir: „Á langri ævi hefur Jóhannes lifað mestu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá upphafi. Og ekki nóg með það. Eftir að hann lauk námi varð hann lykilmaður í þeirri þróun sem efnahagsráðunautur ríkisstjórna og síðar seðlabankastjóri og formaður stjórnar Landsvirkjunar, svo að talin séu þau helstu af fjölmörgum trúnaðarstörfum sem hann gegndi á starsfævinni.“

Algjör umskipti

– Er einhver leið fyrir ungt fólk í dag að skilja þessa veröld sem var?

„Það er ugglaust mjög erfitt fyrir ungt fólk að skilja þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem hafa orðið á minni ævi og hvernig við fórum úr því að vera fátækt og einangrað ríki yfir í að vera það velferðarsamfélag sem við erum í dag. Þá hafa orðið algjör umskipti í tækni frá því sem var í byrjun aldarinnar. Með því að vera í sveit á sumrin öll mín æskuár kynntist ég verklagi gamla bændaþjóðfélagsins sem hafði verið meira og minna óbreytt frá alda öðli.“

Heimsstyrjöldin síðari breytti auðvitað öllu. Jóhannes var í Menntaskólanum í Reykjavík þegar Ísland var hernumið af Bretum. „Þá umturnaðist bæjarlífið og hernámið litaði allt líf okkar enda urðu algjör umskipti í efnhagslífinu. Mér hefur alltaf þótt merkilegt að þrátt fyrir þessi miklu áhrif hve íslenskt menningarlíf varð öflugt á þessum árum. Útgáfustarfsemin blómstraði til að mynda.“

Sjálfur fór hann utan til náms eftir stúdentspróf í miðju stríði haustið 1943. „Það var áhrifamikið að koma til Englands í miðju stríði og upplifa áhrifin sem það hafði á almenning. Þetta var mikil reynsla og hafði auðvitað mótandi áhrif á mig. Síðan tók við uppbyggingin eftir stríð í hverju landi fyrir sig en einnig þegar hafist var handa um að byggja upp nýtt og traust alþjóðakerfi með Sameinuðu þjóðunum og aukinni samvinnu innan Evrópu.“

Eins og glöggt kemur fram í bókinni hafði Jóhannes frá fyrstu tíð mikinn áhuga á umheiminum. „Það hafði örugglega mikil áhrif að faðir minn hafði mjög náin persónuleg tengsl við fræðimenn erlendis og foreldrar mínir voru bæði um tíma erlendis á mínum uppvaxtarárum. Ég ólst því upp við áhuga á umheiminum frá blautu barnsbeini.“

Spurður um umhverfið sem hann kom inn í hér heima eftir nám svarar Jóhannes:

„Íslenskt þjóðfélag varð fyrir mikilli röskun á stríðsárunum. Í kjölfar stríðsins reyndi ríkisstjórnin að halda lífsskjörum með sama hætti og höfðu skapast á þeim tíma. Eftir það tekur við tímabil harðvítugra hafta þangað til ákveðið er að taka upp nýja stefnu 1950 með því að fylgja öðrum Evrópuríkjum í frjálsræðisátt. Þetta tókst ekki eins og skyldi en ég rek í bókinni hvernig umhorfs var á þessum tíma í efnahagslífinu og þær tillögur hagfræðinga sem lágu fyrir. Mín kynslóð fékk það hlutverk að taka þátt í fádæma uppbyggingu íslensks samfélags þegar við komum heim úr námi eftir stríð og byggja upp stofnanir frá grunni,“ segir Jóhannes en hann var fyrsti seðlabankastjóri nýstofnaðs Seðlabanka Íslands árið 1961.

– Hvað þykir þér vænst um frá löngum starfsferli?

„Það er erfitt að tiltaka eitthvað eitt sem stendur uppúr. Mikil straumhvörf urðu með Viðreisnarstjórninni, eða stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat við völd samfleytt frá 1959-1971. Ég held mér sé óhætt að segja að þessi tími hafi verið eftirminnilegasti tíminn á ferlinum. Í stjórninni var einstakur hópur manna sem bar virðingu hver fyrir öðrum. Allir stjórnarmenn voru mjög samstíga um að koma nauðsynlegum breytingum í gegn og þeir fengu tíma til þess þar sem stjórnin sat í þrjú kjörtímabil. Traustið sem ríkti milli lykilmanna í ríkisstjórninni var forsenda þess að hægt var að komast út úr höftunum og opna íslenskt hagkerfi. Á þessum áratug urðu líka tímamót í orkumálum með undirbúningi Búrfellsvirkjunar og stofnun Landsvirkjunar sem tók til starfa 1965,“ segir Jóhannes en hann tók þátt í undirbúningi Búrfellsvirkjunar og varð fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunar og gegndi þeirri stöðu til ársins 1995.

Staðan margslungin

Mörg þeirra verkefna sem Jóhannes tókst á við á sinni starfsævi eru ennþá í brennidepli. Eitt þeirra er verðbólgan sá gamli draugur, sem enn á ný er byrjaður að ríða húsum. „Staðan er margslugnin enda heimurinn stór og flókinn,“ segir Jóhannes. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir alþjóðlegum áhrifum og hvernig þau takmarka að vissu leyti möguleika hverrar þjóðar til að taka sínar sjálfstæðu ákvarðanir. Við Íslendingar höfum gengið í gegnum miklar sveiflur en auðvitað höfum við lært mikið með árunum og styrkt stofnanir okkar til að takast á við efnahagsmálin.“

– Hvernig horfa orkumálin við þér? Margt er að breytast þar.

„Ólíkt því sem áður var eru vandamál samtímans að verða meira og minna hnattræn. Til að taka á vandamálum umhverfisins þarf víðtæka hugarfarsbreytingu. Við Íslendingar búum mjög vel því að náttúrulegar orkulindir okkar eru að mestu leyti umvherfisvænar. Við getum lagt okkar að mörkum í umhverfismálum með því að nýta umhverfisvæna orku sem Ísland býr yfir. Það getur verið vandasamt að gera grein fyrir hvaða kostir eru hagkvæmastir til lengri tíma.“

Eitt síðasta verkefni Jóhannesar Nordals var formennskan í auðlindanefndinni sem skilaði af sér skýrslu árið 2000. Nefndin var kjörin af Alþingi að frumkvæði Davíðs Oddssonar forsætisráðherra til að fjalla um auðlindir í þjóðareign og mögulega gjaldtöku af nýtingu þeirra. Niðurstaða auðlindanefndar var meðal annars að sett yrði sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareign. Þá lögðu nefndarmenn áherslu á að sanngjarnt gjald skyldi greiða fyrir nýtingu varanlegra aflaheimilda. Jóhannes rekur störf nefndarinnar í bókinni meðal annars ágreining um hvort leggja ætti á sérstakt auðlindagjald sem innheimt væri af nýtingu úthlutaðra aflaheimilda eða hvort ákveðinn hluti aflaheimilda yrði fyrndur árlega og síðan endurseldur. „Ég hef verið eindregið þeirrar skoðunar að fyrningarleiðin sé bæði sanngjarnari og líklegri til að leiða til sátta um aflamarkskerfið þegar til lengri tíma væri litið,“ segir Jóhannes um þetta sígilda deilumál.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn fyrir hönd lands og þjóðar svarar Jóhannes:

„Ísland hefur góð tækifæri ef við nýtum okkar möguleika af skynsemi. Við þurfum að byggja á nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Og svo verðum við að hafa hemil á sundurleysisfjandanum sem oft hefur leikið okkur grátt.“

Jóhannes kveðst mjög feginn að hafa lokið þessu verki og hann naut dyggrar aðstoðar frá Pétri Hrafni Árnasyni, sem aðstoðaði hann á ýmsa vegu meðal annars við frágang texta og efnisöflun. „Það var ómetanlegt fyrir mig að hafa slíka aðstoð þegar leið á samningu bókarinnar og lokafrágang. Ég er mjög ánægður með útlit bókarinnar og vona að hún verði dæmi um samtal milli kynslóða.“