Hversu margir? Íbúar landsins eru nú ætlaðir talsvert færri en áður.
Hversu margir? Íbúar landsins eru nú ætlaðir talsvert færri en áður. — Morgunblaðið/Hari
Þjóðskrá Íslands vinnur ekki að gerð manntals og getur eftir atvikum því ekki orðið til svara um endurskoðun á íbúafjölda landsins í kjölfar nýs manntals. „Tölur manntalsins eru byggðar á vinnu Hagstofunnar og getur Þjóðskrá því ekki gert grein…

Þjóðskrá Íslands vinnur ekki að gerð manntals og getur eftir atvikum því ekki orðið til svara um endurskoðun á íbúafjölda landsins í kjölfar nýs manntals.

„Tölur manntalsins eru byggðar á vinnu Hagstofunnar og getur Þjóðskrá því ekki gert grein fyrir þessum mun og vísum við því á Hagstofuna til að gefa útskýringar á því í hverju munurinn felst,“ sagði í skriflegu svari Sifjar Kröyer, fagstjóra hjá Þjóðskrá.

Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um birti Hagstofa Íslands niðurstöður nýs manntals á Íslandi hinn 14. nóvember síðastliðinn. Samkvæmt því voru íbúar landsins um 359 þúsund hinn 1. janúar 2021, eða tæplega tíu þúsund færri en skv. Þjóðskrá.

Talningin á könnu Þjóðskrár

Þá kom fram í blaðinu að mismunurinn lægi í talningu Hagstofunnar á brottfluttum erlendum ríkisborgurum. Þeim væri ekki skylt að skrá brottför er þeir flyttu af landinu og væru því áfram taldir með sem íbúar.

Af því tilefni barst blaðinu árétting frá Hagstofunni þar sem sagði m.a.: „Hagstofan sér hvorki um að telja aðflutta né brottflutta erlenda ríkisborgara sem mannfjöldatölur síðan byggjast á. Það er á könnu Þjóðskrár. Hagstofan áætlar því í raun ekkert í þeim efnum heldur byggir einfaldlega á tölum frá Þjóðskrá sem heldur utan um þær lögum samkvæmt. Um er þannig að ræða mismun á manntalinu, sem unnið er af Hagstofunni, og tölum Þjóðskrár.“

Þá vísaði starfsmaður Hagstofu á Þjóðskrá þegar spurt var um málið. baldura@mbl.is