Höfundurinn „Hann er óhræddur við að tengja saman tvo heima, heim mannfólksins og ævintýraheima,“ segir rýnir um sögu Gunnars Theodórs.
Höfundurinn „Hann er óhræddur við að tengja saman tvo heima, heim mannfólksins og ævintýraheima,“ segir rýnir um sögu Gunnars Theodórs. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unglingabók Furðufjall: Næturfrost ★★★½· Eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Myndir: Fífa Finnsdóttir. Vaka-Helgafell 2022. Innb. 299 bls.

Bækur

Rósa

Harðardóttir

Bókin Næturfrost er önnur í bókaflokknum Furðufjall eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Í fyrstu bókinni, Furðufjall: Nornaseiður, kynntust lesendur drengnum Andreasi og álfastúlkunni Ímu. Í þeirri bók höfðu leiðir þeirra ekki legið saman en gera það í Næturfrosti. Í upphafi sögunnar nema Andreas og fjölskylda hans land á Hulinseyju, eyjunni þar sem Íma býr. Þau eru á flótta undan ægivaldi heima fyrir, útlagar í leit að betri heimi sem þau eru viss um að bíður þeirra á þessari eyju sólar þar sem aldrei dimmir. En sú verður ekki raunin. Sagan segir frá því þegar Andreas og fjölskylda hans koma sér fyrir á eyjunni og hvaða verkefni bíða þeirra. Þau koma sér fyrir á Öskunesi rétt við þann stað sem skipið þeirra kom að landi en þegar Andreas fer í könnunarleiðangur finnur hann yfirgefna borg, segir hinum frá henni og þau ákveða að setjast þar að. Í borginni eru húsakynni og hallir með ýmsum dýrgripum sem nýtast í þeirra daglegu störfum. Þetta er of gott til að vera satt. Spurningin sem allir eru með á bak við eyrað en fáir vilja tala um er hvað varð um fyrri íbúa borgarinnar.

Íma álfastelpa býr í Nornahellinum og stundar nám í nornaskólanum. Hún er bæði forvitin og hvatvís sem kemur henni í vandræði og en getur einnig leyst úr ýmsum vandamálum. Hún á erftitt uppdráttar í hópnum en langar að sanna sig fyrir öðrum ungnornum. Leiðir þeirra Andreasar liggja saman og forvitni Ímu verður til þess að þau kynnast. Þau segja hvort öðru frá leyndardómum fjölskyldna sinna og frá því sem á daga þeirra hefur drifið.

Eitt af þeim leyndarmálum sem Íma treystir Andreasi fyrir er að senn muni degi halla og nóttin nálgast. Andreas verður hissa því hans fólk hafði bara heyrt sögur af því að á Hulinseyju kæmi nóttin aldrei. Íma segir honum frá átökum álfa við fjallið og hvernig hrörálfar urðu til og hvaða eiginleikum þeir voru gæddir. Hún segir honum frá næturhátíðinni sem er skemmtilegasti tími ársins og er rétt handan við hornið. Hún gaukar að honum góðri aðferð fyrir mannfólkið ef það vill halda sína vetrarhátíð án þess að segja honum í hvaða hamförum það getur lent. Hápunktur sögunnar er svo næturfrostið sjálft sem leggst yfir borgina með þeim hrikalegu afleiðingum sem sannarlega komu á óvart.

Sagan fer rólega af stað og segir á myndrænan hátt frá þeim ævintýrum sem börnin og fólkið þeirra rata í. Þegar sagan nær hápunkti sínum verður atburðarásin svo hröð og spennandi að erfitt er að leggja bókina frá sér. Höfundur skilur lesandann eftir á þeim stað að næstum ógerningur er að bíða í heilt ár eftir framhaldinu.

Gunnari tekst vel að skapa framandi heim í þessari sögu eins og svo oft áður. Hann er óhræddur við að tengja saman tvo heima, heim mannfólksins og ævintýraheima. Hann ögrar ungum lesendum með hrollvekjandi lýsingum og dregur stundum ekkert undan. Bókin er skemmtilega myndlýst með myndum eftir Fífu Finnsdóttur.