Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Við teljum þetta mjög óeðlilegan málsmeðferðartíma. Það tók þrjá og hálfan mánuð að afgreiða virkjanaleyfi fyrir tvær síðustu stórvirkjanir Landsvirkjunar. Við erum sammála því að vanda vinnubrögð en teljum að það hafi einnig verið gert við hinar umsóknirnar,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar (LV), um skýringar orkumálastjóra á töfum við útgáfu virkjanaleyfis fyrir Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár.
Útgáfa virkjanaleyfis fyrir Hvammsvirkjun sem Landsvirkjun sótti um fyrir einu og hálfu ári er á lokametrunum hjá Orkustofnun. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, svaraði ekki beint spurningu blaðamanns Morgunblaðsins um það hvort þetta teldist eðlilegur málsmeðferðartími en gaf sem skýringar í viðtali sem birtist í blaðinu í gær að málið væri umfangsmikið og flókið og vel þyrfti að vanda til verka. Jafnframt sagði hún aðrar umsóknir hafa verið á undan í röðinni og bæta hefði þurft við mannskap til að hafa undan í verkefnum.
Endurtaki sig ekki
Hörður telur að það séu eðlileg vinnubrögð að auglýsa umsókn og óska eftir umsögnum strax og umsókn berst. Það hafi í þessu tilviki ekki verið gert fyrr en ári eftir að umsóknin var send inn. Þess vegna hafi lítið verið unnið að málinu fyrsta árið.
„Við teljum það ekki gott ef Orkustofnun lítur á þetta sem eðlileg vinnubrögð og teljum óheppilegt ef þetta verður viðtekin venja. Aðalmálið í okkar huga er að þetta endurtaki sig ekki,“ segir Hörður og tekur fram að Landsvirkjun geri ekki athugasemdir við vinnu Orkustofnunar við leyfisumsóknina síðustu mánuði, vinnubrögðin á þeim tíma hafi verið eðlileg.