Hvíld Kristín í Lövstabruk í Roslagen í Svíþjóð eftir bókarskrifin.
Hvíld Kristín í Lövstabruk í Roslagen í Svíþjóð eftir bókarskrifin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Eugenía Nielsen var kjarnorkukona og lét mikið til sín taka á ýmsum sviðum mannlífs og menningar á Eyrarbakka, en lítið sem ekkert hefur verið um hana fjallað til þessa. Kristín Bragadóttir hefur heldur betur bætt úr því eins og viðamikil bók hennar, Bakkadrottningin Eugenía Nielsen, sem Ugla gefur út, er til vitnis um.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Eugenía Nielsen var kjarnorkukona og lét mikið til sín taka á ýmsum sviðum mannlífs og menningar á Eyrarbakka, en lítið sem ekkert hefur verið um hana fjallað til þessa. Kristín Bragadóttir hefur heldur betur bætt úr því eins og viðamikil bók hennar, Bakkadrottningin Eugenía Nielsen, sem Ugla gefur út, er til vitnis um.

Jakobína Eugenía Guðmundsdóttir Thorgrímsen (1850-1916) fæddist í Kaupmannshúsinu á Eyrarbakka, Húsinu svokallaða, og bjó þar lengst af. Foreldrar hennar voru Guðmundur Thorgrimsen verslunarstjóri Lefoliiverslunarinnar og Sylvia Thorgrimsen menningarfrömuður. Hún var í fóstri hjá landlæknishjónunum Karen Jakobínu og Jóni Hjaltalín í Reykjavík með hléum í fimm ár frá átta ára aldri og stundaði þá meðal annars tónlistarnám. Síðsumars 1864 fór hún með foreldrum sínum og systkinum til Danmerkur og drakk í sig lífið í stórborginni til vors 1865.

„Hún var athafnakona, fædd af efra standi, sem, öndvert við flestar íslenskar konur á þessum tíma, fékk mjög gott uppeldi og menntun,“ segir Kristín. Faktorshjónin hafi lagt rækt við börnin í húsinu og Eugenía hafi auk þess lært mikið af veru sinni í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Víðsýni hennar hafi síðan skilað sér þegar hún hafi verið orðin fullorðin og stjórnað sem frúin í Húsinu. Hún hafi verið einstaklega dugleg við að miðla söng, leiklist og myndlist. „Þótt hún hafi ekki verið prímadonnan í þessum listgreinum studdi hún vel við fólk sem vildi sinna þeim.“

Félagsfrömuður

Eugenía sinnti vel bágstöddum á Eyrarbakka og stóð ásamt öðrum að stofnun margra félaga, þar á meðal kvenfélagsins 1888, sem varð strax líknarfélag. Fjáröflun félagsins var af margvíslegum toga og með það að leiðarljósi að reisa sjúkrahús. Af því varð þó ekki heldur stöðvuðust framkvæmdir og varð þetta síðan fangelsið Litla-Hraun eftir hennar daga. „Hún notaði stöðu sína til að hjálpa verulega til í kotunum og það hefur kostað sitt.“ Hún hafi tekið þátt í stofnun bindindisfélagsins, verið virk í því og ræktað það alla tíð. „Hún var mjög félagslega þroskuð og lét gott af sér leiða á öllum vígstöðvum. Hún vann endalaust fyrir samfélagið, hvort sem það var á menningarlegu sviði eða félagslegu, og hreif fólkið, ekki síst konurnar, með sér. Þetta heillaði mig svo mikið að mig langaði til þess að skrifa þessa kvennasögu.“

Foreldrar Kristínar bjuggu á Eyrarbakka og hún ólst þar upp til 18 ára aldurs. Hún segist snemma hafa heyrt af Eugeníu og ekki síst örlæti hennar. „Hún kenndi meðal annars handavinnu í skólanum og áhrif hennar hafa lifað þar í frábærri handavinnukennslu nemenda, meðal annars mér til handa.“ Líknarhugsjón hennar hafi brugðið fyrir mjög lengi og hún hafi tekið á móti heimsmönnum af mikilli reisn. Þar á meðal enska skáldinu og hönnuðinum William Morris en munstur hans prýðir saurblöð bókarinnar. Hún hafi komið til hjálpar þar sem hún kom því við og í raun brúað bilið á milli ríkra og fátækra. „Hún hrærðist á tvennum vígstöðvum; í Húsinu þar sem hún stýrði öllu og stjórnaði menningunni, og svo úti í þorpinu á meðal fólksins, sem margt hvert lifði við mikla fátækt.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson