2021 Kynnar og verðlaunahafar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna á sviði í Berlín í fyrra.
2021 Kynnar og verðlaunahafar Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna á sviði í Berlín í fyrra. — EFA/Franzizka Krug
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slétt vika er nú í að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin (EFA) verði afhent í Hörpu en afhendingin er árlegur stórviðburður í evrópsku menningarlífi. Afhenda átti verðlaunin hér á landi fyrir tveimur árum en vegna heimsfaraldurs var viðburðurinn blásinn…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Slétt vika er nú í að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin (EFA) verði afhent í Hörpu en afhendingin er árlegur stórviðburður í evrópsku menningarlífi. Afhenda átti verðlaunin hér á landi fyrir tveimur árum en vegna heimsfaraldurs var viðburðurinn blásinn af og svo aftur í fyrra en þá voru verðlaunin afhent í Berlín og sýnt frá henni í sjónvarpi.

Á hátíðina mætir margt fremsta kvikmyndagerðarfólk álfunnar að jafnaði, flestir hinna tilnefndu og mikill fjöldi fjölmiðlafólks frá ýmsum Evrópulöndum. Gert er ráð fyrir hátt í 1.200 gestum á viðburðinn og munu þeir eðlilega koma víða að úr Evrópu auk þess sem von er á um tvö hundruð erlendum blaða- og fjölmiðlamönnum. Verður sýnt frá hátíðinni í beinni útsendingu á RÚV og á mánudag verður kynnt hverjir verða kynnar kvöldsins. Í fyrra var það kvikmynd bosníska leikstjórans Jasmilu Zbanic, Quo Vadis, Aida?, sem hreppti verðlaunin sem besta evrópska kvikmyndin og spennandi verður að sjá hver hreppir þau að þessu sinni.

Bent úr nokkrum áttum

Unnsteinn Manuel Stefánsson ætti að vita allt um útsendinguna en hann gegnir starfi listræns stjórnanda verðlaunaathafnarinnar á Íslandi. Fyrirkomulag hennar er þannig að annað hvert ár er hún haldin í Berlín og hin árin í ólíkum borgum Evrópu en það er Evrópska kvikmyndaakademían sem stendur að baki verðlaununum.

Unnsteinn er spurður í hverju starf hans felist og segist hann í raun sjá um sjónvarpsþáttinn, beinu útsendinguna, og hvernig sé hægt að gera hana skemmtilega. Leitað var til Unnsteins vegna reynslu hans af listsköpun og gerð sjónvarpsþátta en einnig menntunar þar sem hann stundaði nám í Berlín í handritaskrifum fyrir sjónvarp.

„Það var bent á mig úr nokkrum áttum og ég hef líka gert dálítið fjölbreytta þætti, líka verið í beinum sjónvarpsútsendingum, t.d. þegar við gerðum tvær þáttaraðir af The Voice. Svo er þetta líka spurning um hvað virkar á sviði því þetta er bein útsending, hvað við viljum hafa á sviði og hvað á að taka upp fyrirfram,“ segir Unnsteinn.

Myndir kynntar um leið

Unnsteinn er spurður að því hvort hann telji hátíðina sambærilega Óskarsverðlaunahátíðinni bandarísku og segir hann eitthvað líkt með þeim en efnistökin þó ólík. „Stóri munurinn er náttúrlega sá að myndir á Óskarnum eru allar gefnar út rétt áður þannig að maður hefur tækifæri til að horfa á þær allar. Hér erum við ekkert síður að hugsa til þess að þessi þáttur sé að kynna margar af þessum kvikmyndum fyrir áhorfendum. Þetta eru myndir sem fólk vissi ekkert af og þarna er dálítið stór munur og maður þekkir ekki endilega öll andlitin sem eru þarna. Maður er náttúrlega stöðugt að skoða aðrar hátíðir,“ segir Unnsteinn. Þetta verkefni hafi verið krefjandi en um leið skemmtilegt og lærdómsríkt.

Ég er ekki viss um að Íslendingar átti sig á því hversu mikill viðburður þetta er og mikilvæg verðlaun, hvað heldur þú?

„Ég er alveg sammála því og fyrir mitt leyti fatta ég það ekki alveg stundum sjálfur en fæ svo „reality check“. Ég hef aldrei farið á verðlaunin, var bara fenginn í þau síðasta sumar,“ svarar Unnsteinn. Til að koma sér í gírinn fyrir verðlaunin sé um að gera fyrir kvikmyndaáhugafólk að sjá sem flestar þeirra mynda sem tilnefndar eru en Bíó Paradís hefur sýnt margar þeirra á undanförnum vikum á Evrópskum kvikmyndadögum. Þá má búast við að einhverjar myndanna tilnefndu fari í sýningar á næstu mánuðum og inn á streymisveitur.

Hefur séð um 90%

Unnsteinn er spurður að því hvort hann hafi séð allar tilnefndu myndirnar og segist hann hafa séð þær flesatr. Sumar þeirra séu aðeins tilnefndar í einum flokki, t.d. fyrir leikara eða klippingu, en aðrar í fleirum, t.d. Triangle of Sadness sem er tilnefnd í fjórum flokkum og þá meðal annarra sem besta evrópska kvikmyndin og fyrir bestu leikstjórn. Unnsteinn segist hafa séð um 90% myndanna og er það harla góður árangur miðað við fjöldann sem sjá má á vef verðlaunanna, europeanfilmawards.eu.

Íslenskir kynnar verðlaunanna verða kynntir á mánudag og sjá þeir sjálfir um að semja sinn kynningartexta. Unnsteinn segir þau skrif hafa staðið yfir í allan vetur og heyra má á honum að áhorfendur eigi von á góðu.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson