Eyrarbakki Mesta hækkun fasteignaskatta verður í Árborg.
Eyrarbakki Mesta hækkun fasteignaskatta verður í Árborg. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er yfirgengilegt að í sumum sveitarfélögum skuli ekki vera gerðar neinar breytingar á skattprósentu fasteignaskatta, þrátt fyrir gríðarlegar hækkanir á fasteignamati. Það þýðir tilsvarandi skattahækkanir fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir Ólafur…

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það er yfirgengilegt að í sumum sveitarfélögum skuli ekki vera gerðar neinar breytingar á skattprósentu fasteignaskatta, þrátt fyrir gríðarlegar hækkanir á fasteignamati. Það þýðir tilsvarandi skattahækkanir fyrir fólk og fyrirtæki,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, um samanburð og breytingar tólf stærstu sveitarfélaganna á álagningarprósentu fasteignaskatta sem félagið hefur tekið saman.

Á töflunni sést að sjö af þessum sveitarfélögum hyggjast lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði á næsta ári til að koma til móts við íbúa vegna hækkunar fasteignamats um komandi áramót og sex þeirra hyggjast lækka skatthlutfallið af atvinnuhúsnæði. Er þá miðað við þau áform sem koma fram í frumvörpum að fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna fyrir næsta ár.

Furðar sig á Reykjavík

Sjá má að Mosfellsbær og Garðabær hyggjast lækka mjög álögur á íbúðarhúsnæði, frá því sem orðið hefði. Mesta hækkunin verður hins vegar í Árborg, að óbreyttu, eða 36,4%, því þar er skatthlutfallið ekki lækkað þrátt fyrir mikla hækkun fasteignamats. Langstærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg, breytir ekki hlutfallinu, hvorki á íbúðar- né atvinnuhúsnæði, og þess vegna bitna fasteignagjaldahækkanirnar beint á íbúum og fyrirtækjum. Sama á við um fleiri sveitarfélög, eins og til dæmis Hafnarfjörð.

„Maður heldur áfram að furða sig á þessari afstöðu Reykjavíkurborgar,“ segir Ólafur um óbreytta prósentu Reykjavíkur á atvinnuhúsnæði. „Meirihlutinn virðist meðvitað hafa ákveðið að rýra samkeppnisstöðu borgarinnar gagnvart nágrannasveitarfélögunum, um það hvar fyrirtækin staðsetja sig. Reykjavík er nú með langhæstu fasteignaskattana á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Meirihlutinn hefur boðað að ekkert verði hreyft við því fyrr en í lok kjörtímabilsins. Þetta er afstaða sem við eigum erfitt með að skilja,“ segir Ólafur en tekur um leið fram að ástæða sé til að hrósa Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ fyrir að lækka skatthlutfall af atvinnuhúsnæði.

Höf.: Helgi Bjarnason