Fjölgun Spáð er að erlendum ferðamönnum fjölgi næstu misserin.
Fjölgun Spáð er að erlendum ferðamönnum fjölgi næstu misserin. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það skortir í umræðuna um hóteláform á Íslandi hversu erfitt er að fá fjármagn til slíkrar uppbyggingar. Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, FHG, en tilefnið er meðal annars umfjöllun í…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Það skortir í umræðuna um hóteláform á Íslandi hversu erfitt er að fá fjármagn til slíkrar uppbyggingar.

Þetta segir Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, FHG, en tilefnið er meðal annars umfjöllun í Morgunblaðinu síðustu helgi um þörf á nýjum hótelum víða um landið

„Það er fyrst og fremst rætt um þörf á nýjum hótelum úti á landi og ég geri ekki lítið úr því. Fyrst þarf þó að tryggja fjármagn og arðbæran rekstur þegar hótel hefur verið byggt. Byggingarkostnaður er á uppleið, aðföng hafa hækkað í verði og launakostnaður aukist. Þá eru hótelin í vaxandi samkeppni við aðila eins og íbúða- og sumarhúsagistingu, sem og hótelskip, sem lúta ekki sömu leikreglum, hvorki hvað varðar opinber gjöld né eftirlitskröfur. Allt þetta veldur því að erfitt er að fá fjármagn á viðráðanlegu verði í hóteluppbyggingu. Það er höfuðverkurinn. Þess vegna spretta ekki upp hótelin,“ segir Kristófer.

Spárnar raunhæfar

Samkvæmt spám mun erlendum ferðamönnum fjölga á næstu árum og þeir jafnvel verða þrjár milljónir innan fárra ára. Spurður hvort slíkar spár séu raunhæfar, ef ekki verða byggð fleiri hótel, segir Kristófer slíkar áætlanir raunhæfar ef ferðamenn dreifast betur yfir árið um landið allt. Þannig nýtast núverandi innviðir betur.

Greining KPMG hafi til dæmis leitt í ljós að gistirými á Norðurlandi séu mikið bókuð yfir sumarið. Hina níu mánuði ársins sé hins vegar mikið svigrúm til aukningar.

„Það er og verður verkefnið hjá okkur að nýta betur þær hótelbyggingar sem fyrir eru samhliða frekari aukningu,“ segir Kristófer og bendir á að ný hótel hafi verið tekin í notkun í Reykjavík eftir að faraldrinum lauk. Þá hafi bæst við ný hótel úti á landi en að vísu ekki stór hótel.

Hækkuðu mest í faraldri

Kristófer segir aðspurður að rekstrarumhverfið sé „gríðarlega krefjandi“.

„Við sjáum hvað launin hafa hækkað og það grátbroslega er að þau hafa hækkað mest allra atvinnugreina í ferðaþjónstunni. Raunar hafa laun á hótelum aldrei hækkað jafn mikið og þegar þau voru lokuð í faraldrinum. Við finnum fyrir þessu sem og óvissu í komandi kjarasamningum. Fyrir utan að rekstraraðilar eru að rísa upp sligaðir af skuldum eftir faraldurinn,“ segir Kristófer.

Hvað snertir mannaflaþörf hafi mikið til ræst úr henni. Þá ekki síst með aðflutningi vinnuafls. Við því sé að búast að hingað komi erlent vinnuafl á næsta ári til að starfa á hótelum. „Það vita það allir að hótelin eru að miklu leyti mönnuð með erlendu vinnuafli,“ segir Kristófer.

Spurður um samkeppnishæfni Íslands í ferðaþjónustu, ef laun hækka jafn mikið og rætt er um, segir Kristófer að eftirspurnin sé mjög góð og að gengisþróun hafi hjálpað til.

„Með því að skapa heilbrigt starfsumhverfi í greininni, þar sem aðilar í gistirekstri á sjó og landi búa við sambærilegar leikreglur, skapast forsendur fyrir heilbrigðri uppbyggingu á ársgrundvelli, sem mun laða að fjármagn til vaxtar og skila hinu opinbera auknum tekjum,“ segir Kristófer að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson