Ingólfur Geir Gissurarson er fæddur 4. desember 1962 á Suðureyri við Súgandafjörð og verður sextugur á morgun. „Ég fæddist í húsi við sjávarsíðuna sem nefndist Steinbúð sem móðurafi minn og amma byggðu en fluttist til Akranes með móður minni 1966 þegar móðir mín giftist fósturföður mínum Ásmundi Ólafssyni. Ég var síðan nær öll uppeldisár mín á sumrin hjá afa og ömmu á Suðureyri milli þess sem ég gekk í skóla á Akranesi, fyrst grunnskólann og svo Fjölbrautaskólann á Akranesi til stúdentsprófs.
Ég hóf ungur, ca 8 ára, að stunda sund á Akranesi og naut þar traustrar handleiðslu sundkennara sem lyftu grettistaki í sundinu á Akranesi á þessum árum í kringum 1970-1980, manna eins og Helga Hannessonar, Ævars Sigurðssonar og fleiri. Sundið átti vel við mig. Mikil og markviss þjálfun með tilheyrandi aga og eljusemi lagði grunninn fyrir mitt líf og hef ég búið að því æ síðan. Keppnin var allsráðandi enda gróskan í sundinu mikil á þessum árum á Akranesi.
Á endanum varð Ingólfur margfaldur unglingameistari og Íslandsmeistari og náði að setja alls um 20 Íslandsmet í fullorðinsflokki áður en yfir lauk. Hann var valinn íþróttamaður Akranes 1979 og 1981, og einnig Sundmaður ársins á Íslandi 1981. „Ég hætti keppni í sundinu í kringum tvítugt og fór að þjálfa sund. Fyrst á Akranesi samhliða námi og síðan á Ísafirði hjá Vestra með vinnu í Landsbankanum. Fór síðan 1983-84 á loðnuvertíð á Víkingi frá Akranesi.“
Ingólfur stundaði nám haustið 1984 hjá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og útskrifaðist sem íþróttakennari 1986. „Þá var komið að hefðbundnu brauðstriti, ég og Margrét eiginkona mín vorum þá búin að eignast okkar fyrsta barn. Það þurfti að kaupa íbúð og fór ég því á sjóinn á Höfrungi frá Akranesi, bæði á loðnu og rækju. Á þeim árum dugði ekkert annað en að þéna vel þegar íbúðarkaup stóðu yfir enda íbúðarlán af skornum skammti.
Ingólfur var íþróttakennari við Fossvogsskóla skólaárið 1987-88 ásamt því að þjálfa sundlið Aspar í Reykjavík. Hann fór þá aftur eitt ár á sjóinn á fjölveiðiskipið Pétur Jónsson. „Þá var komið að því að huga að kennslu aftur 1989, en þá var ég óvænt fenginn til að leysa af á fasteignasölunni Huginn í liðlega mánuð sumarið 1989. Það reyndist örlagaríkt því það átti það vel við mig og gekk það vel að ég hef unnið við fasteignasölu síðan.“
Hann tók löggildingu sem fasteigna-, skipa- og fyrirtækjasali 1997 og leigumiðlararéttindi einhverju síðar. Hann vann á Hugin fasteignasölu til 1992, fór þá á Gimli fasteignasölu til 1995 þegar hann stofnaði ásamt Bárði Tryggvasyni fasteignasöluna Valhöll og rekur hana enn í dag. Hann sat í stjórn Félags fasteignasala árin 1999-2002, ásamt því að starfa í nefndum fyrir félagið.
„Ég hóf að stunda langhlaup markvisst 1994, enda hentuðu langhlaup mér vel með minn góða bakgrunn úr sundinu. Sú iðkun þróaðist nú bara strax í alvöru keppnisferil sem sífellt vatt upp á sig.“ Ingólfur varð fimm sinnum Íslandsmeistari í maraþonhlaupi á árunum 1995 til 2001. Hann hljóp á þessum tíma 20 maraþon hlaup og þar af voru 17 undir 3 klst., sem þótti þá talsvert afrek.
„Ég róaðist nú heldur eftir þennan tíma í hlaupunum en þá tók bara annað áhugamál við sem lengi hafði blundað í mér, sem var að ganga á há fjöll erlendis. Það varð nú eiginlega sama sagan þar. Fjöllin urðu sífelt hærri því það lá vel fyrir mér að vera í súrefnisleysinu hátt uppi sem er nú ekki sjálfgefið þrátt fyrir gott líkamlegt form.“ Helstu fjöll sem Ingólfur gekk á eru Elbrus 5.642 m í Suður-Rússlandi og hæsta fjall Evrópu; Kilimanjaro 5.895 m, Tansaníu, sem er hæsta fjall Afríku; Aconcagua 6.962 m, Argentínu, hæsta fjall S-Ameríku; og að endingu Everest 21. maí 2013, 8.848 m, hæsta fjall heims.
„Þá varð ekki komist hærra og ákvörðun tekin um að láta gott heita. Nú á síðustu árum hafa heimsóknir á golfvöllinn orðið tíðar, enda gott sport fyrir okkur hjónin að stunda saman. Síðan hef ég stundað stang- og skotveiði síðustu 20-30 ár í góðum vinahópum og haft ómælda ánægju af.“
Fjölskylda
Eiginkona Ingólfs er Margrét Björk Svavarsdóttir, f. 11.12. 1963, viðskipta- og stjórnunarfræðingur, M.Sc. Þau búa í Staðahverfi í Grafarvogi og hafa búið í Grafarvogi síðan 1990. Foreldrar Margrétar: hjónin Svavar Sigurjónsson, f. 26.8. 1938, fv. skipasmiður og kaupmaður, og Sigurbjörg Eiríksdóttir, f. 23.11. 1941, d. 4.2. 1997, hótelstjóri. Þau voru búsett í Reykjavík og býr
Svavar nú í Staðahverfi.
Börn Ingólfs og Margrétar eru 1) Jónína Ingólfsdóttir, f. 7.11. 1985, skurðlæknir, búsett í Reykjavík. Börn hennar og fv. eiginmanns, Jóseps B. Þórhallssonar, eru Saga, f. 2010, Magnea, f. 2013 og Stefán Þór, f. 2015; 2) Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir, f. 1.11. 1990, leikari og sagnfræðingur, búsett í London. Trúlofuð Benjamin Peterson leikstjóra frá Minnesota, BNA; 3) Lína María Ingólfsdóttir, f. 10.11. 1997, starfsmaður Heilsuhússins, búsett í Grafarvogi. Unnusti hennar er Brynjar Traustason, nemi í tölvunarfræði HÍ.
Systkini Ingólfs eru Þórður Ásmundsson, f. 28.4. 1968, sölustjóri, búsettur í Reykjavík; Stefán Orri Ásmundsson, f. 18.3. 1971, d. 13.5. 1977; Patrekur Peterson, f. 1968, tryggingafræðingur og Lísa Peterson, f. 1970, læknir, búsett í Little Rock, Arkansas, BNA.
Foreldrar Ingólfs eru Jónína
Jóhanna Ingólfsdóttir, f. 10.4. 1941. fv. yfirljósmóðir Sjúkrahússins á Akranesi, og Gissur Jökull Pétursson, f. 17.3. 1933, augnlæknir, búsettur í Little Rock. Stjúpfaðir Ingólfs er Ásmundur Ólafsson, f. 23.11. 1938, fv. framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi. Jónína og Ásmundur voru búsett lengst af á Akranesi en búa nú í Mörkinni í Reykjavík.