Heimsókn Frá vinstri: Anna Birna Þráinsdóttir fv. sýslumaður og Sigurður Jakob Jónsson í Varmahlíð, Ásgeir Jónsson með brúnan bjúgnapokann. Hægra megin á myndinni eru þau Guðmundur Viðarsson og Jóhanna Sólveig Þórhallsdóttir, bændur í Skálakoti. Öll eru þau sólarmegin í tilverunni.
Heimsókn Frá vinstri: Anna Birna Þráinsdóttir fv. sýslumaður og Sigurður Jakob Jónsson í Varmahlíð, Ásgeir Jónsson með brúnan bjúgnapokann. Hægra megin á myndinni eru þau Guðmundur Viðarsson og Jóhanna Sólveig Þórhallsdóttir, bændur í Skálakoti. Öll eru þau sólarmegin í tilverunni.
Allur er varinn góður segja Rangæingar á faraldsfæti. Hjónin Anna Birna Þráinsdóttir og Sigurður Jakob Jónsson, sem búa í Varmahlíð undir Eyjafjöllum, fóru til tveggja vikna dvalar á Tenerife sl. fimmtudag og fengu Guðmund Viðarsson og Jóhönnu…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Allur er varinn góður segja Rangæingar á faraldsfæti. Hjónin Anna Birna Þráinsdóttir og Sigurður Jakob Jónsson, sem búa í Varmahlíð undir Eyjafjöllum, fóru til tveggja vikna dvalar á Tenerife sl. fimmtudag og fengu Guðmund Viðarsson og Jóhönnu Sólveigu Þórhallsdóttur, bændur í Skálakoti, til að skutla sér á Keflavíkurflugvöll. „Gjaldeyrinum er sólundað og við vildum því fá fararleyfi á réttum stað,“ segir Guðmundur sem ætlar utan eftir nokkra daga og vera í eina viku á sólareyjunni. „Sjö dagar duga mér, en Jóhanna mín fór út með þeim vinum okkar,“ segir Guðmundur.

Herramannsmatur

Athygli vakti nýlega þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði tásumyndir frá Tenerife að umtalsefni. Sagði að ferðagleði og mikil neysla landsmanna raungerðist í því, enda hefur verið gripið til vaxtahækkana í því skyni að kæla hagkerfið. Þetta hafa ýmsir tekið til sín og á leiðinni suður í Leifsstöð nú í vikunni kom Eyjafjallafólk við á Kalkofnsvegi, heilsaði upp á Ásgeir og kom líka færandi hendi.

„Ásgeir er alþýðlegur maður sem gaman er að tala við. Og svona til að ferðin hefði blessun komum við færandi hendi og gáfum honum heimagerð hrossabjúgu. Þetta er herramannsmatur sem ég veit að Ásgeir gerir góð skil, sveitamaður uppalinn í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi og í Skagafirði. Við sögðum honum í heimsókninni í bankann að hér undir Eyjafjöllum léti fólk heldur ekki sitt eftir liggja við gjaldeyrisöflun. Bæði hér í Skálakoti og í Varmahlíð er ferðaþjónusta, hingað koma ferðamenn og gjaldeyririnn fossar inn í landið. Svo er hér líka myndarlegur landbúnaður og allt er í blóma,“ segir Guðmundur.

Vil ekki skemma jólin

„Jú, ég fæ reglulega heimsóknir frá fólki úti í samfélaginu með margs konar erindi. Mér finnst það skemmtilegt því slíkt leiðir hugann frá þessari venjulegu umræðu um efnahagsmál. Alltaf er gott að heyra umbúðalaust frá fólkinu í landinu hvernig Seðlabankinn stendur sig. Heimsókn Eyfellinganna var mjög skemmtileg,“ segir Ásgeir og heldur áfram:

„Talandi um neyslugleði landans þá held að flestir hafi gert sín plön fyrir jólin. Ég geri ekki ráð fyrir að fólk fari að breyta þeim fyrir mín orð enda vil ég ekki skemma jólin fyrir neinum. Ég held þó að allir séu meðvitaðir um stöðu efnahagsmála og mín tilfinning er sú að fólk snúi við blaðinu eftir nýár. Að minnsta kosti skildu allir myndlíkinguna með tærnar á Tene!“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson