Gert er ráð fyrir því að indónesíska þingið samþykki innan tíðar lög, sem banna kynlíf utan hjónabands. Brot við því banni varði allt að eins árs fangelsi.
Verði lögin sett munu þau ná til bæði indónesískra ríkisborgara og erlendra borgara í landinu.
Lagafrumvarpið, sem liggur fyrir þinginu, gerir einnig ráð fyrir því að pör megi ekki búa saman áður en þau gangi í hjónaband. Brot gegn því gæti varðað allt að sex mánaða fangelsi.
Reuters-fréttastofan segir, að ýmis hagsmunasamtök hafi lýst áhyggjum af þeim áhrifum, sem lögin kunni að hafa á ímynd Indónesíu sem ferðamannalands og fjárfestingarkosts.