Skot Hörður var sjálfur öflugur framherji.
Skot Hörður var sjálfur öflugur framherji. — Morgunblaðið/Jim Smart
Á meðan heimsmeistaramótið í fótbolta er í gangi er afskaplega lítill tími aflögu til að fylgjast með öðru sjónvarpsefni. Þannig er það líka núna í miðri keppni í Katar þar sem riðlakeppninni lauk í gærkvöld og spennandi útsláttarkeppni hefst í dag

Víðir Sigurðsson

Á meðan heimsmeistaramótið í fótbolta er í gangi er afskaplega lítill tími aflögu til að fylgjast með öðru sjónvarpsefni. Þannig er það líka núna í miðri keppni í Katar þar sem riðlakeppninni lauk í gærkvöld og spennandi útsláttarkeppni hefst í dag.

RÚV sýnir alla leikina og hefur komist ágætlega frá því verkefni hingað til með vaska sveit sérfræðinga sér til aðstoðar. Að auki voru fulltrúar stöðvarinnar sendir til Katar, sem kannski er óþarfi þegar Íslendingar eiga ekki lið á mótinu. Ekki meir um það hér.

Sterkasti leikur ríkismiðilsins var hins vegar að fá Hörð Magnússon til að lýsa mörgum af leikjum mótsins. Hörður er þrautreyndur í faginu og lýsir aðallega á Viaplay í seinni tíð eftir að hann hvarf á braut frá 365 um árið. Áhorfendur eru aldrei sviknir af lýsingum Harðar sem kryddar þær hæfilega með tilfinningum, sem og áhugaverðum fróðleik um lið og leikmenn, enda mætir hann ávallt vel undir­búinn í sínar lýsingar.

Þetta leiðir hugann að öðrum öflugum fyrrverandi starfsmanni 365, og félaga Harðar þar um árabil, sem RÚV krækti í fyrir nokkru. Arnar Björnsson fer þar á kostum á fréttastofunni, hvort sem er í útvarpi eða sjónvarpi, enda hokinn af reynslu eftir langan feril í íþrótta­fréttamennsku hjá báðum þessum miðlum.

Höf.: Víðir Sigurðsson