Tölvan segir nei-starfsmaðurinn hjá Þjóðskrá Íslands var á sama tíma að ljósrita einhver skjöl á bak við skilrúm en heyrði á tal þeirra tveggja, sveigjanlega starfsmannsins og Karls, og leið líkamlegar þjáningar og kvalir.

Pistill

Orri Páll

Ormarsson

orri@mbl.is

Maður er nefndur Karl. Hún er kona. Karl fæddist að vísu sem karl en fann sig aldrei almennilega í þeim líkama og lét fyrir vikið gera á honum bragarbót fyrir fáeinum misserum með þeim árangri að hún er nú kona. Henni líður margfalt betur í dag og er sátt við Guð og menn. Er það vel enda ekkert mikilvægara í þessu lífi en að líða vel í eigin skinni.

Enda þótt leiðrétting þessi kallaði að vonum á nokkur umskipti þá vildi Karl ekki fyrir nokkra muni fórna skírnarnafni sínu enda það sama og hjá föður hennar og afa, sem hvor tveggja voru henni afar kærir. Góðir menn, Karl eldri og Karl langeldri.

Þegar Karl var í stjórnmálafræðinni í háskólanum fyrir um þremur áratugum þurfti hann (hann var hann á þeim tíma) stundum að þola kjánalegar fyrirspurnir eins og: „Kalli, hvort heitirðu í höfuðið á pabba þínum eða afa?“ Karl lét sér þetta þó alla jafna í léttu rúmi liggja enda mun flóknari úrlausnarefni sem biðu hans á lífsins leið.

Í öllu falli. Karl var svo lánsöm að sveigjanlegi starfsmaðurinn var við og ekki á bíóinu þegar hana bar að garði hjá Þjóðskrá Íslands til að tilkynna um kynleiðréttinguna og óska um leið eftir því að fá að halda sínu upprunalega nafni.

„Tja, Karl,“ sagði sveigjanlegi starfsmaðurinn, „er það nokkuð verra nafn á konu en hvað annað? Er ekki Sigríður Hlynur bóndi löngu búinn að leggja línurnar þegar kemur að kynrænu sjálfræði?“

Þetta gladdi okkar konu, Karl.

Tölvan segir nei-starfsmaðurinn hjá Þjóðskrá Íslands var á sama tíma að ljósrita einhver skjöl á bak við skilrúm en heyrði á tal þeirra tveggja, sveigjanlega starfsmannsins og Karls, og leið líkamlegar þjáningar og kvalir. Viðvörunarbjöllur hringdu hástöfum úti um allt, meira að segja undir lófunum og iljunum. „Nei, nei, nei og aftur nei!“ emjaði tölvan segir nei-starfsmaðurinn innra með sér. „Hvað ertu að gera, bjáninn þinn? Hvað ertu að gera?“ Ekkert var þó við þessu að segja, enda tölvan löngu búin að harðbanna starfsmanninum að taka fram fyrir hendurnar á öðrum. Eins og hann langaði samt ofboðslega oft til þess.

Einu var Karl þó látin breyta. „Þú getur ekki verið son! Þar dreg ég mörkin!“ sagði sveigjanlegi starfsmaðurinn. Karl gat fellt sig við það og heitir því ekki lengur Karl Karlsson, heldur Karl Karlsdóttir. Sem er bara helvíti fínt nafn, ef þið spyrjið mig. Trúið þið mér ekki skuluð þið bara fletta þessu upp í þjóðskrá.