Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Fögnum frelsaranum. Þökkum og gleðjumst og segjum börnunum okkar og barnabörnum frá þeirri lífsfyllingu sem frelsarinn Jesús er og vill okkur gefa.

Sigurbjörn

Þorkelsson

Jólin eru hátíð okkar Guðs ólíku barna sem þó erum með svona svipaðar þarfir þegar allt kemur til alls.

Flest viljum við lifa og biðjum þess að við komumst einhvern veginn af í þessi hrjáðu, hræddu og um margt voluðu veröld. Aðstæður okkar og efnisleg gæði eru vissulega misjöfn og við búum við mismikið öryggi. En það er einmitt það sem við innst inni öll þráum að fá að búa við; öryggi, von, kærleik og frið. Það að reiknað sé með okkur, að fá að vera með og taka þátt, jafnt sem gefendur með einhverjum hætti ekki síður en þiggjendur. En verðmætamatið getur bara oft og er eitthvað svo skelfing skakkt reiknað út.

Jesús Kristur, sonur Guðs og manna, kom einmitt inn í þennan heim til að veita okkur bjarta og eilífa framtíðarsýn. Hjartafrið sem enginn annar getur fært okkur og ekkert óréttlæti eða öfgar geta frá okkur tekið. Hann kom í heiminn til að opna okkur lífsins faðm, þrátt fyrir allt böl og brekkur. Faðm sem gott er að fá að þiggja skilyrðislaust að fá að hvíla í og njóta.

Enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Hvað þá svo þeir fái lifað um eilífð. Þetta er sú lífsins von sem aðventan færir okkur og við höldum upp á um jólin.

Fögnum því frelsaranum. Þökkum og gleðjumst og segjum börnunum okkar og barnabörnum frá þeirri lífsfyllingu sem frelsarinn Jesús er.

Því það er svo sorglegt að horfa upp á mannkynið missa af þeirri einstöku og skærustu jóla- og lífsins gjöf sem hægt er að gefa og færa nokkru mannsins barni. Þeirri gjöf sem verður ekki troðið inn á okkur í glanspappír heldur bankar í hógværð á hjartadyrnar og býðst til að koma inn í líf okkar og létta okkur byrðarnar með því að bera þær með okkur með sínu friðgefandi og kærleiksríka vonarljósi.

Engillinn sagði: „Verið óhrædd, því sjá, ég boða ykkur mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum. Ykkur er í dag frelsari fæddur. Þið munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ (Úr 2. kafla Lúkasarguðspjalls.)

„Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“ (Úr 1. kafla Jóhannesarguðspjalls versi 9-12.)

Njótum þess að leyfa ljósi lífsins, sem er Jesús Kristur, að leika um okkur og lýsa okkur upp skammdegið og tilveruna almennt. Því Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.“

Hann hefur heitið því að vera með okkur alla daga, allt til enda veraldar, og inn í hina himnesku eilífu dýrð þegar að því kemur.

Í einlægri bæn um vonarríka aðventu, gleðileg og innihaldsrík jól.

Með kærleiks- og friðarkveðju. Í Jesú nafni.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.