Börn að leik á plantekrunni Roça Agostinho Neto.
Börn að leik á plantekrunni Roça Agostinho Neto. — Ljósmyndir/Bogi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Bjarnason hefur víða komið á umliðnum árum til að kynna frisbígolf, svo sem til Níkaragva og Brasilíu, en segir Saó Tóme og Prinsípe, tveggja eyja eyríki í Gíneuflóa undan strönd Vestur-Afríku, frumstæðasta samfélagið sem hann hafi kynnst

Bogi Bjarnason hefur víða komið á umliðnum árum til að kynna frisbígolf, svo sem til Níkaragva og Brasilíu, en segir Saó Tóme og Prinsípe, tveggja eyja eyríki í Gíneuflóa undan strönd Vestur-Afríku, frumstæðasta samfélagið sem hann hafi kynnst. Aðeins búa þar um 220 þúsund manns.

Bogi, sem á sæti í stjórn Alþjóðafrisbígolfsambandsins, dvaldist í landinu í um vikutíma í október í boði sænsks félaga síns, Thors Wallgrens. „Frisbígolfsenan í Svíþjóð leitar mikið til mín og Thor bauð mér með sér til að skrifa og taka myndir fyrir heimasíðu sambandsins. Hann vill ekki búa í Svíþjóð á veturna – skiljanlega – og eftir að menn reyndu að skjóta hann í Úrúgvæ flutti hann sig yfir til Saó Tóme, þar sem hann fékk leyfi til að byggja frisbígolfvöll á einni plantekrunni sem heimamenn ráða yfir eftir að Portúgalarnir fóru árið 1976,“ segir Bogi en tilgangur ferðarinnar var að setja upp níu körfu völl fyrir heimamenn og gesti þeirra.

Úr alfaraleið

Eyjarnar voru óbyggðar þegar Portúgalar komu þangað á 15. öld, að því er segir á Wikipediu. Þeir fluttu þræla þangað frá Mið-Afríku eða þar sem Angóla og Kongó eru í dag. Þrælarnir unnu á sykurplantekrum sem síðar urðu kakó- og kaffiplantekrur. Þrælaviðskipti voru milli Saó Tóme og Prinsípe og Brasilíu og Karíbaeyja.

Þar sem eyjarnar eru úr alfaraleið hefur gengið hægt að byggja upp ferðaþjónustu þar og Bogi hefur á tilfinningunni að heimamenn hafi svo sem takmarkaðan áhuga á því. „Það var ómögulegt að átta sig á því hvernig ferðaþjónustan þarna virkar. Aðstæður eru góðar en menn greinilega með annan fótinn á bremsunni.“

Aðstæður á hótelinu, sem hann dvaldist á, voru mjög frumstæðar, sum greiðslukort tekin en önnur ekki og engin virk nettenging, sem þó hafði verið lofað. „Ég hef áður verið í frumstæðum aðstæðum, eins og í Níkaragva, en þar fékk maður þó allt það helsta. Á Saó Tóme fékk ég hvorki koffín né sykur í heila viku, svo dæmi sé tekið. Einfaldast var að næla sér í ávexti á trjánum.“

Smiðurinn fluttur

Búið var að panta níu körfur fyrir frísbígolfvöllinn en þegar á hólminn var komið voru þær bara átta og smiðurinn fluttur til Portúgals. Þá voru heimamenn búnir að grafa holur bæði á teig og flöt, sem þurfti að laga. Lendingin var sú að sex körfu velli var komið upp inni í þykkasta frumskógi, þar sem hver maður var vopnaður sveðju. Aðeins einn heimamanna talaði hrafl í ensku og milliganga hans flækti málin yfirleitt frekar en hitt. „Þetta var misskilningur á misskilning ofan,“ segir Bogi hlæjandi, „og tvímælalaust erfiðustu aðstæður sem ég hef þurft að leggja frisbígolfvöll við.“

Hann segir fólkið almennt viðkunnanlegt og það orð fari af Saó Tóme að eyjan sé friðsæl og lítið um ættbálkaerjur. „Fiskimennirnir hafa það best og einhver uppskera er ennþá á kakóplantekrunum en ekkert í líkingu við það sem var. En það er engin leið að byggja upp frisbígolfsenu þarna.“

Spurður hvort hann stefni skónum aftur á þessar framandi slóðir hugsar Bogi málið stutta stund. „Mér finnst það ólíklegt en færi svo þá myndi ég gera það á eigin vegum og skipuleggja ferðina mjög vel.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson